„Fangar og fórnarlömb kynferðisofbeldis almennt eiga erfitt með að viðurkenna að brotið hafi verið á sér kynferðislega. Hvað þá þegar maður er í umhverfi sem bælir niður tilfinningar og þú mátt ekki sýna veikleika. Það hefur töluverðar afleiðingar á fanga að upplifa þetta í afplánun,“
segir Kristel Dögg Vilhjálmsdóttir nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Kristel er sálfræðimenntuð og gerði nýlega rannsókn á ofbeldi innan veggja íslenskra fangelsa. Kristel segir talsvert um að fangar verði fyrir kynferðisofbeldi í íslenskum fangelsunum og að tíðni slíkra mála sé hlutfallslega á pari við það sem gerist í löndunum í kringum okkur.
Kristel segir niðurstöður leiða í ljós að reiði verður meiri hjá föngum sem upplifa ofbeldi, sérstaklega kynferðisofbeldi.
„Við erum ekkert heilagari en aðrar þjóðir hvað varðar fangelsismál og ofbeldi í fangelsum. Rannsóknir sýna að við erum bara svipuð og önnur lönd sem hafa gert rannsóknir á ofbeldi í fangelsum. Afleiðingar af kynferðisofbeldi eru alvarlegar og þær eru ekki síður alvarlegar ef það er fangi eða Jón og Gunna út í bæ. Það er alveg alvarlegt að verða fyrir kynferðisafbroti yfirhöfuð og það gerir það verra kannski að vera fastur í fangelsi með geranda sínum. Maður getur ímyndað sér að viðkomandi upplifi stöðuga ógn að ofbeldið geti gerst aftur, að það sé eins gott að kjafta ekki frá, að þeir geti lent í veseni, þetta getur orðið kúgun.“
Þeir sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í afplánun eru líklegri að vera með einhvers konar vopn á sér og eiga erfitt með samskipti við samfanga, að sögn Kristel.
„Þeir eru reiðari og draga sig meira í hlé og eru með klassískt áfallaeinkenni, eins og martraðir, „fight or flight.“ Það kom fram að það eru fleiri sem hafa orðið vitni að kynferðisofbeldi og heyrt af því, en þeir sem viðurkenna það. Það gefur alveg til kynna að það er meira af kynferðisofbeldi en rannsóknir sýna. Það hefur verið tabú að ræða það. Þetta eru einstaklingar sem hafa brotið af sér og eru tabú í samfélaginu. Og þá er enn meira tabú að ræða það að þeir verði líka fyrir ofbeldi. Það þarf að opna umræðuna með þetta.“
Kristel segir þörf á úrbótum á aðstoð við fanga.
„Það er ekki gott að hleypa fanga út sem er með áfallastreitueinkenni, kannski ofan á gömul áfallastreitueinkenni. Það gerir ekki samfélaginu gott og ekki þeim gott að koma út í samfélagið með þennan bagga. Það er þörf á úrbótum á aðstoð við fanga, þó geðheilsuteymið hafi verið sett á legg, þá vantar töluvert upp á.
Fangar þurfa að hafa svolítið fyrir því margir að fá aðstoð. Þeir sem vilja aðstoð eiga erfitt með að fá hana. Það er erfitt líka að meðhöndla áföll í fangelsi. Þegar maður fer í áfallameðferð þá er hún erfið og þarna ert þú fastur á stað sem er óstabíll og heitfengur, maður þarf að vera í öruggu umhverfi. Það hefur verið talað um að reynist best þegar fangar koma út og vinna í kynferðisofbeldismálum. En það vantar samt stuðning strax eftir, það er betra fyrir samfélagið ef fangar koma endurhæfðir út og með breytt viðhorf og meiri tilfinningastjórn. Það er betra fyrir þá líka þeir fá meiri lífsgæði og finna réttari farveg með líf sitt en áður. Það má líka tala um að karlmenn verði fyrir ofbeldi og konur verði fyrir ofbeldi en það þarf ekki að vera þessi keppni á milli eins og maður hefur oft upplifað. Karlmenn mega stíga fram og mér finnst gott þegar þeir gera það, og segja frá kynferðislegu ofbeldi sem þeir urðu fyrir í æsku eða á fullorðinsárum. Það þarf hugrekki.“