Ólafur hefur látið sig þessi mál varða en það vakti athygli í nóvember síðastliðnum þegar hann greindi frá því að hann væri búinn að fá nóg af stöðunni í þessum málaflokki hér á landi. Sonur hans er á einhverfurófi og sagði Ólafur að vegna skorts á úrræðum fyrir hann hér á landi væri hagsmunum þeirra betur borgið utan landsteinanna.
Sjá einnig: Ólafur fengið nóg og yfirgefur Ísland:„Farið út, var sagt við mig, þið fáið enga hjálp hér“
Ólafur bendir á það í grein sinni að hann sé ekki einn í þessari stöðu.
„Við erum hópur foreldra fullorðinna einhverfra einstaklinga sem hefur hist reglulega og deilt reynslu okkar. Börnin okkar – því þau eru og munu ávallt vera börnin okkar – eru frá tvítugu upp í fertugt. Þau búa ein, eru einhverf en fá enga nauðsynlega aðstoð. Afleiðingarnar eru skelfilegar: þau hafa gefist upp og mörg þeirra hafa tjáð sjálfsvígshugsanir. Kerfið okkar gerir einfaldlega ekki ráð fyrir þeim,“ segir Ólafur.
Hann segir að þegar þau leita aðstoðar sé þeim mætt með skilningsleysi og úrræðaleysi.
„Hvorki geðlæknar, sálfræðingar, félagsráðgjafar né aðrir sérfræðingar í heilbrigðis- eða félagskerfinu virðast hafa svör eða lausnir. Ráðamenn loka augunum fyrir vandanum og hafa gert það um árabil. Við höfum talað við hundruð einstaklinga í sömu stöðu og alltaf heyrum við sama frasann: „Gangi ykkur vel.“ Það er ljóst að kerfinu er sama.“
Ólafur segir að foreldrar þessara einstaklinga séu í stöðugri baráttu við kerfið til að tryggja velferð barna sinna.
„Þeir heimsækja, hlúa að og reyna að veita þá umönnun sem samfélagið ætti að tryggja. Á sama tíma er álagið slíkt að margir foreldrar eru komnir í veikindaleyfi og aðrir á örorku. Þeir hafa fengið hjartaáföll, þróað með sér geðsjúkdóma og hjónabönd hafa liðið undir lok vegna álags sem þessu fylgir. Þetta er martröð sem enginn ætti að þurfa að lifa við,“ segir Ólafur sem ætlar þó ekki að gefast upp. „Við krefjumst þess að mannréttindi þessara einstaklinga séu virt. Við greiðum skatta til þessa samfélags og krefjumst sjálfsagðrar þjónustu fyrir börnin okkar.“
Ólafur segir að starfshópurinn sem hann talar fyrir vinni nú að tillögum um raunhæf úrræði.
„Við skoðum bestu meðferðir erlendis, leitum að húsnæði og kortleggjum þá þekkingu sem er fyrir hendi á Íslandi. Okkur vantar hins vegar betri upplýsingar um fjölda einhverfra í sömu stöðu og aðstandenda þeirra. Því biðjum við alla sem vilja deila sinni sögu að hafa samband við okkur,“ segir hann og bætir við að fullum trúnaði sé heitið.
„Hugmynd okkar er að koma á fót stofnun sem veitir bestu mögulegu úrræði fyrir þá sem þurfa. Við vitum að einhverfu er ekki hægt að lækna en það er hægt að auðvelda þeim lífið og veita stuðning til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Núverandi úrræðaleysi kostar þjóðfélagið um 30 milljarða árlega. Það er gríðarleg fjárhæð sem væri betur varið í raunveruleg úrræði,“ segir hann og bætir við að stofnunin sem hópurinn vill byggja verði með innlögnum fyrir þá sem þurfa, göngudeildarþjónustu og stuðningsúrræði fyrir fjölskyldur.
„Engum á að þurfa að líða eins og börnunum okkar hefur liðið. Við munum leggja tillögur okkar fyrir ráðamenn og krefjast stuðnings. Eins og svo oft áður þurfa einstaklingar að fylla í eyðurnar sem hið opinbera skilur eftir sig. Við ætlum að vera það afl – sú breyting – sem samfélagið þarf. Markmið okkar er að opna þessa stofnun eigi síðar en 2026. Við munum byrja smátt en vaxa eftir þörfum,“ segir Ólafur sem segir að lokum:
„Ef þú vilt deila sögu þinni með okkur, vinsamlegast sendu tölvupóst á olafursigurds@simnet.is.“