Hvað má og hvað má ekki í kirkjugarði? Ekki eru allir sammála um það. Myndband náðist um helgina af tveimur ungmennum á skellinöðru og rafskútu æða um gangbrautir kirkjugarðsins í Grafarvogi. Skiptist fólk í tvær fylkingar um hvort þetta væri í lagi eða ekki.
„Kannski er það bara ég, en mér finnst þetta svolítið skrýtið og jafnvel dónalegt að gera þetta í kirkjugarði,“ segir nafnlaus færsluhöfundur í hverfisgrúbbu í Grafarvoginum og birtir myndband af tveimur ungmennum æðandi um kirkjugarðinn. Annar á skellinöðru en hinn á rafhlaupahjóli. „Það virtist sem foreldrar væru nálægt.“
Greinir hann einnig frá því að annar drengurinn hafi farið ítrekað yfir grasbungur í kirkjugarðinum, til þess að reyna að ná betra og betra stökki á hjólinu.
Taka margir undir með færsluhöfundi og segja þetta ekki viðeigandi hegðun. Það sé verið að raska friði hinna látnu.
„Mér finnst þetta ekki viðeigandi. En líklega ekki allir sammála því,“ segir ein kona. „Nei það er ekki bara þú þetta kallast vanvirða við hina látnu,“ segir einn maður. „Ég kenni börnunum mínum að virða svona staði og vona að aðrir geri það líka,“ segir sá þriðji. Einn nefnir að möguleg ástæða fyrir þessu sé að það vanti græn svæði Grafarvoginum.
Öðrum finnst þetta allt hið besta mál. Hinir látnu finni ekkert fyrir þessu og það sé gott mál að hleypa smá lífi í kirkjugarðinn.
„Það á að leika sér í kirkjugörðum. Passa að vera ekki með læti ef það er greftrun í gangi. Veit samt ekki með svona rafmagnshjól en hlaupa, labba og hjóla á venjulegum hjólum er fine. Til hvers að hafa allt þetta land undir látið fólk ef lifandi mega ekki nota það?,“ spyr ein kona. „Ég er nokkuð viss um að þeir látnu vilji að við hin sem erum lifandi höldum áfram að njóta. Segja nöfnin á ástvinum og tala um alla fallegu legsteinana.“
„Þetta er i finu lagi, þeir eru að hjóla a göngustíg. Hver hefðu viðbrögðin verið hefði þetta verið bill að keyra sömu leið,“ segir annar. „Sé ekkert að þessu. Bara barnsins vorgleði sem er öllum hollt að horfa á. Kirkjugarður á ekki að sveima í anda dauðans gröf heldur gleði góðra minninga þeirra sem við minnumst,“ segir sú þriðja.
Í reglum um umgengni í kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæmanna segir að sérhver hávaði eða ys sé bannaður. Öllum sé frjáls för um kirkjugarðana en með takmörkunum. Börn yngri en 12 ára verði að vera í fylgd með fullorðnum og bannað er að fara um með hunda eða önnur dýr.
Á opnunartíma er umferð vélknúinna ökutækja leyfð nema í Suðurgötukirkjugarði þar sem umferð allra vélknúinna ökutækja og reiðhjóla er bönnuð nema með sérstöku leyfi.