Þetta kemur fram í aðsendri grein Bjarna sem birtist í Morgunblaðinu í dag, en Bjarni hefur áður vakið athygli fyrir að kalla eftir því að stofnaður verði her hér á landi.
Sjá einnig: Bjarni blæs á gagnrýnina og segir ótvíræða kosti fylgja því að taka upp herskyldu hér á landi
Bjarni bendir á að Ísland sé eina NATO-ríkið án eigin hers. „Ef stigið væri það skref að setja á laggirnar íslenskan her væri rökrétt að stofna sjálfstæða leyniþjónustu um leið til að takast á við öryggismál innanlands sem og utanlands, enda er leyniþjónusta ómissandi þáttur í varnarkerfi ríkja. Þótt íslensk stjórnvöld haldi úti greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur hún takmarkaða getu til að sinna hefðbundnum verkefnum leyniþjónustu, t.a.m. gagnnjósnastarfsemi,“ segir Bjarni í grein sinni.
Einhverjir velta eflaust fyrir sér hvort smáríki eins og Ísland þurfi á því að halda að stofna leyniþjónustu. Bjarni segir að smáríki á borð við okkur séu ekki undanskilin öryggisógnum heldur þurfi þau þvert á móti að verja sig með sömu aðferðum og stærri ríki, sérstaklega í ljósi netógna, erlendra áhrifa og alþjóðlegra átaka.
„Margar þjóðir hafa þróað sérhæfðar leyniþjónustustofnanir til að bregðast við slíkum ógnum, þar á meðal ríki á borð við Bretland, sem hefur aðgreint innri og ytri leyniþjónustu. Þar sinnir MI5 innanlandsöryggi en MI6 utanríkisstarfsemi. Slík skipting þjónar mikilvægu hlutverki, þar sem innri leyniþjónusta ber ábyrgð á að upplýsa um hryðjuverk, skipulagða glæpastarfsemi og ógnir gegn stjórnkerfinu en ytri leyniþjónustan sinnir gagnnjósnum og öflun upplýsinga um erlendar ógnir,“ segir hann.
Bjarni segir að hér á landi væri hægt að styðjast við sambærilegra aðgreiningu hérlendis til að tryggja skilvirkara öryggis- og varnarkerfi.
„Greiningardeild ríkislögreglustjóra gæti fengið breytt hlutverk og líkst í meiri mæli MI5 en nú er. Ef ytri leyniþjónusta yrði sett á laggirnar hefði hún það hlutverk að afla upplýsinga um þá erlendu njósnastarfsemi sem stunduð er hérlendis og beinist gegn íslenskum stjórnvöldum, stofnunum og borgurum. Þá myndi hún sinna gagnnjósnum gegn óvinveittum ríkjum og skipulögðum glæpa- og hryðjuverkahópum sem geta nýtt Ísland sem skjól fyrir netárásir, peningaþvætti eða aðra ólöglega starfsemi,“ segir Bjarni meðal annars.
Hann segir að mikilvægur þáttur í starfsemi leyniþjónustu sé traust og samstarf við erlendar systurstofnanir. Ef Ísland myndi starfrækja skilvirka leyniþjónustu sem þekkt væri af fagmennsku myndi það auka traust annarra ríkja og auka flæði upplýsinga til landsins um hugsanlegar ógnir. Veltir hann fyrir sér hvernig þessum málum er háttað í dag og hvernig upplýsingar frá erlendum leyniþjónustum komist til íslenskra stjórnvalda.
Færi svo að Ísland myndi stofna leyniþjónustu segir Bjarni mikilvægt að hafa skýran lagaramma utan um slíka starfsemi, sjálfstætt eftirlit og lýðræðislegt aðhald til að koma í veg fyrir misnotkun valds.
Grein sína endar hann á þessum orðum:
„Íslenska þjóðin þarf að vakna til vitundar um að öryggis- og varnarmál nútímans snúast ekki einvörðungu um landamærahelgi og yfirráðasvæði heldur einnig um getuna til að bregðast við netógnum, njósnastarfsemi og hryðjuverkum. Með því að koma á fót öflugri leyniþjónustu gætu íslensk stjórnvöld varið betur sjálfstæði sitt, dregið úr veikleikum gagnvart alþjóðlegum ógnum og staðið jafnfætis öðrum þjóðum í öryggis- og varnarsamstarfi.“