fbpx
Mánudagur 17.mars 2025
Fréttir

Fær ekki bætur eftir „misheppnaða“ aðgerð hjá lækni sem missti starfsleyfið

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 16. mars 2025 15:00

Mynd úr safni. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hefur staðfest synjun ónefnds tryggingafélags á beiðni einstaklings um bætur úr sjúklingatryggingu ónefnds læknis. Hafði viðkomandi gengist undir aðgerð á nefi hjá lækninum en læknirinn var nokkrum mánuðum síðar leystur frá störfum af embætti Landlæknis og missti loks starfsleyfið. Sagði viðkomandi að aðgerðin hefði misheppnast en tókst að sögn nefndarinnar ekki að sanna það.

Gekkst kærandinn í málinu undir aðgerð hjá lækninum vegna skekkju á miðnesi. Ástandið lagaðist hins vegar ekki að hans sögn eftir aðgerðina heldur versnaði. Segir kærandinn að þá hafi ný einkenni, þ.e. blæðing og sáramyndun í nefi, og brak í brjóski, slímleki frá nefi niður í háls, kláði og sviði gert vart við sig. Eftir nokkra mánuði hafi kærandinn leitað til kollega læknisins þar sem hann hafði þá verið leystur frá störfum og síðar misst starfsleyfi sitt. Hinn læknirinn hafi framkvæmt aðra aðgerð í mars 2020 en hún ekki skilað tilætluðum árangri og sagðist kærandinn hafa þurft að lifa með einkennunum síðan þá.

Í júlí 2021 barst kærandanum bréf um rannsókn landlæknisembættisins á starfsháttum læknisins sem hann fór fyrst til en tveimur óháðum sérfræðingum hafi verið falið að rannsaka sjúkragögn vegna tiltekinna tegunda skurðaðgerða sem læknirinn hafi framkvæmt haustið 2019. Í tilviki kærandans hafi verið gerð athugasemd við skamman aðgerðartíma miðað við skráð inngrip, en aðgerðin hafi aðeins tekið tíu mínútur sem sé ótrúverðugt miðað við umfang aðgerðarinnar og rétta framkvæmd hennar. Þá segi í bréfinu að embættinu sé ekki kunnugt um hvaða áhrif umrædd aðgerð hafi haft eða hvort mein eða fylgikvilli hafi hlotist af henni.

Hafnað

Sagðist kærandinn í maí 2022 hafa gert kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu læknisins en tryggingafélagið hafi, með bréfi í janúar 2024, hafnað bótaskyldu. Þrátt fyrir framlagningu frekari sjúkragagna og ósk um endurskoðun á þeirri afstöðu hafi tryggingafélagið staðfest höfnun á bótaskyldu með bréfi í mars 2024. Vísaði kærandinn meðal annars til þess að í sjúkraskrárnótu í nóvember 2022, komi fram að hann þjáist af stöðugum blóðnösum eftir aðgerðina og vakni alla morgna með sár og storknað blóð í nefinu. Þjáist hann einnig af sviða og kláða. Vildi hann meina að aðgerðin hjá lækninum hafi valdið þessu líkamstjóni og því eigi hann rétt á bótum úr sjúklingatryggingunni.

Vildi tryggingafélagið meina að kærandinn hafi ekki leitað læknis eftir síðari aðgerðina, hjá kollega læknisins sem missti starfsleyfið. Koma hans á heilsugæslu í nóvember 2022 hafi eingöngu verið í þeim tilgangi að fá einkenni skráð vegna bótamáls. Hann hafi ekki tilkynnt um líkamstjón sitt fyrr en tveimur og hálfu ári eftir aðgerðina og hafi ekki sýnt fram á að hið meinta tjón megi rekja til aðgerðarinnar hjá lækninum. Enn fremur sýni engin gögn fram á að fullyrðingar hans um blæðingar og stöðug sár í nefinu standist. Niðurstaða sérfræðinga embættis Landlæknis um ótrúverðugan aðgerðartíma breyti engu.

Ekki gert illt verra

Segir í niðurstöðu úrskurðarnefndar vátryggingamála að samkvæmt göngudeildarnótu vegna komu kærandans til hins læknisins í mars 2020 hafi skoðun leitt í ljós að miðnesið vísaði enn til vinstri. Séu að öðru leyti ekki gerðar athugasemdir við aðgerðina, hjá fyrri lækninum, sem slíka eða árangur hennar. Þá yrði ekki ráðið af læknisfræðilegum gögnum að aðgerðin hafi gert illt verra hvað skekkju á miðnesi varðar.

Segir nefndin einnig nokkuð um það að aðgerðir af þessu tagi þurfi síðari leiðréttinga við þrátt fyrir að vandað sé til þeirra eins vel og mögulegt sé.

Þegar kemur að fullyrðingum kærandans um stanslaus sár og blæðingar úr nefi liggi engin læknisfræðileg gögn fyrir sem sýni fram á orsakir eða algengi slíkra einkenna.

Því sé niðurstaðan sú að ekki hafi verið sýnt að aðgerðin hjá lækninum sem síðar var sviptur starfsleyfi hafi valdið kærandanum líkamstjóni og því eigi hann ekki rétt á bótum úr sjúklingatryggingu læknisins.

Ítrekar nefndin það að lokum að svo mikill skortur sé á læknisfræðilegum gögnum í málinu að óhjákvæmilegt hafi verið að hafna kröfum kærandans. Segir nefndin ekki ljóst hver árangur af aðgerðinni hjá lækninum sem kærandinn fór til eftir aðgerðina hjá lækninum sem missti starfsleyfið hafi verið og að kærandinn hafi verið upplýstur um það í síðustu heimsókn sinni á heilsugæslu í nóvember 2022 að ítarleg skoðun sérfræðilækna þyrfti að fara fram en hann hafi þá verið greindur með blóðnasir og langvinnt sár á húð. Samkvæmt gögnum málsins hafi þessi skoðun sérfræðilækna aldrei farið fram eftir þetta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kópavogsbær neitaði í þrjú ár að afgreiða beiðni húsbyggjenda um lokaúttekt

Kópavogsbær neitaði í þrjú ár að afgreiða beiðni húsbyggjenda um lokaúttekt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið: Tvær konur og tveir karlar eru í gæsluvarðhaldi

Manndrápsmálið: Tvær konur og tveir karlar eru í gæsluvarðhaldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þingmenn Samfylkingarinnar vilja leyfa systkinaforgang í leikskólum – Samvera systkina dýrmæt upplifun

Þingmenn Samfylkingarinnar vilja leyfa systkinaforgang í leikskólum – Samvera systkina dýrmæt upplifun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eyþór var rekinn fyrir framan alla: „Mér var sýnd mikil niðurlæging“

Eyþór var rekinn fyrir framan alla: „Mér var sýnd mikil niðurlæging“