fbpx
Sunnudagur 16.mars 2025
Fréttir

Listamaður sem litaði Strokk reyndi að svelta grísi – Aktívistar komu þeim til bjargar

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 15. mars 2025 20:30

Grísirnir þrír Lúsía, Símon og Benjamín. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Listamanni sem hugðist svelta grísi til bana í umdeildri sýningu í Danmörku verður ekki að ósk sinni þar sem grísunum var stolið. Listamaðurinn olli miklum usla á Íslandi fyrir nokkrum árum síðan þegar hann setti litarefni ofan í Strokk.

Listamaðurinn heitir Marco Evaristti og er frá Síle. Hann hugðist setja upp listagjörning í Kaupmannahöfn til að sýna fram á grimmdina sem felst í fjöldaframleiðslu sláturdýra. Yfirskriftin var And Now You Care.

Setti hann þrjá grísi, Lúsíu, Símon og Benjamín, í búr í síðustu viku og neitaði þeim um bæði vatn og mat. Tilgangurinn var að láta þá tærast upp og drepast fyrir augum okkar.

Eins og gefur að skilja var sýningin afar umdeild. Þó að tilgangurinn væri kannski göfugur þá fannst mörgum aðferðin ekki réttlætanleg. Fékk Marco ófáa hatursfulla tölvupóstana eftir að sýningunni var komið á fót.

Sýningin fór hins vegar forgörðum þegar dýraverndunarsinnar brutust inn og björguðu grísunum þremur. Kom í ljós að félagi hans, maður að nafni Caspar Steffensen, hafði átt þátt í þjófnaðinum.

„Ég hringdi í lögregluna á laugardag til þess að tilkynna að grísunum hefði verið stolið og að ég hefði þurft að loka sýningunni vegna þessa,“ sagði Marco. „Ég var fyrir miklum vonbrigðum þegar Caspar sagði mér á þriðjudag að hann hefði verið viðriðinn þjófnaðinn.“

Í kröppum dansi á Íslandi

Nafnið Marco Evaristti ætti að klingja einhverjum bjöllum hjá Íslendingum en hann var talsvert í fréttum sumarið 2015 vegna annars umdeilds listagjörnings. Það er þegar hann sullaði bleikum ávaxtalit niður í hverinn Strokk í Haukadal.

Sjá einnig:

Síleski Strokksmálarinn sýknaður á Selfossi

Hét sá gjörningur The Rauður Thermal Project og var hluti af listaverkaseríu sem kallaðist The Pink State. En Marco hafði áður til að mynda málað ísjaka á Grænlandi bleikan sem og hulið topp fjallsins Mount Blanc með rauðu efni.

Uppátækið olli miklum usla fyrir um áratug síðan.

Komst Marco í kast við lögin út af þessu uppátæki sínu og var sektaður um 100 þúsund krónur af lögreglunni á Suðurlandi. Einnig var hann kærður fyrir brot á náttúruverndarlögum en reyndar sýknaður af þeim sökum sumarið 2016.

Dóttirin bað um líf fyrir grísina

Caspar sagði að hann hefði ekki geta afborið að sjá grísina veslast upp í búrinu. Einnig að dóttir hans hefði beðið hann að sjá til þess að grísirnir myndu ekki deyja.

„Þegar aktívistar höfðu samband við mig til að reyna að fá grísunum sleppt þá hleypti ég þeim leynilega inn í galleríið á laugardag,“ viðurkenndi Caspar.

Umræddur aktívistahópur kallast De Glemte Danske og lýsti því yfir á þriðjudag að hafa bjargað grísunum af sýningunni.

Vill endurvekja sýninguna

Marco virðist ekki vera allt of ósáttur við málalokin þó að hann hafi tilkynnt málið til lögreglu. „Ég hugsaði um þetta í nokkra klukkutíma og áttaði mig á því að grísirnir myndu alla vega eiga gott líf,“ sagði hann.

Marco fer ótroðnar slóðir í listgjörningi sínum.

Þrátt fyrir þetta hefur Marco hugsað um að endurvekja sýninguna með einhverjum hætti. Til dæmis með því að reyna að stela dauðum grísum úr sláturhúsi og sýna almenningi. Önnur hugmynd er að bjóða þrjá grísi upp til hæstbjóðanda, sem myndi lofa að veita þeim gott líf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Manndrápsmálið: Ekkert heyrst um að hinn látni hafi sóst eftir kynnum við börn – Glímdi við erfið veikindi

Manndrápsmálið: Ekkert heyrst um að hinn látni hafi sóst eftir kynnum við börn – Glímdi við erfið veikindi
Fréttir
Í gær

Tilkynningar um svindlpósta í nafni Póstsins daglegt brauð

Tilkynningar um svindlpósta í nafni Póstsins daglegt brauð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fast sótt að Ásthildi Lóu: „Steininn tekur úr þegar hún lætur svona ummæli falla“

Fast sótt að Ásthildi Lóu: „Steininn tekur úr þegar hún lætur svona ummæli falla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sauð upp úr í ræktinni og einum vísað út

Sauð upp úr í ræktinni og einum vísað út