DV greindi frá málinu í gærmorgun og vísaði í færslu sem Ásthildur hafði skrifað á Facebook daginn áður, eða sama dag og dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli hennar og eiginmanns hennar gegn íslenska ríkinu.
Sjá einnig: Ásthildur Lóa: „Við erum löngu hætt að gera ráð fyrir réttlæti hjá íslenskum dómstólum”
Ásthildur og eiginmaður hennar fóru fram á skaðabætur og vildu meina að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi staðið ranglega að nauðungarsölu á fasteign þeirra í Garðabæ og ekki tekið tillit til fyrningar vaxta. Héraðsdómur dæmdi ríkinu í vil í málinu.
Í færslu sinni lýsti Ásthildur Lóa vonbrigðum með niðurstöðuna og sagði meðal annars:
„Hann kom því miður ekki á óvart dómur héraðsdóms gegn okkur Haffa í dag. Við erum löngu hætt að gera ráð fyrir réttlæti hjá íslenskum dómstólum.“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, gagnrýnir ummæli Ásthildar harðlega í Morgunblaðinu í dag.
„Eitt er hversu einkennilegt það er að standa í þessum málaferlum sem ráðherra, en steininn tekur úr þegar hún lætur svona ummæli falla um dómstóla í landinu öllu,“ segir Áslaug Arna við Morgunblaðið.
Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður, gagnrýndi Ásthildi einnig í pistli á Facebook í gær.
„Það er auðvitað ekkert athugavert við það að fólk sé ósátt við einstaka dómsúrlausnir og telji þær rangar. Við slíkar aðstæður verður hins vegar að gera þá kröfu að gagnrýni á dómsniðurstöðu byggi á einhverjum efnislegum og lagalegum grundvelli þar sem á það er bent að samkvæmt þeim lögum, sem dómurum bar að fylgja við úrlausn málsins, hefði niðurstaðan átt að vera önnur en hún varð. Líklega er ekki ósanngjarnt að halda því fram að sú krafa sé enn ríkari þegar ráðamenn þjóðarinnar eiga í hlut,“ sagði hann meðal annars.
Í Morgunblaðinu í dag er einnig rætt við núverandi dómsmálaráðherra, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, sem kveðst ekki deila áhyggjum Ásthildar Lóu um íslenska dómstóla.
„Íslenskir borgarar geta auðvitað allir – ráðherrar þar með taldir – leitað réttar síns fyrir dómstólum þegar þeim þykir á sig hallað. Ég styð þann rétt heilshugar, enda búum við í réttarríki, en tek ekki undir þessi ummæli að nokkru leyti,“ segir Þorbjörg á forsíðu Morgunblaðsins í dag.