Farþegar í flugvél American Airlines þurftu að flýja út á væng vélarinnar á flugvellinum í Denver eftir að eldur kom upp. Myndbönd náðist af atvikinu.
Vélin, sem er af gerðinni Boeing 737-800, var á leið frá Colorado Springs til Dallas í gær þegar slysið gerðist. Flugmennirnir tóku eftir skjálfta í vélinni skömmu eftir brottför og ákváðu að lenda vélinni í Denver. Hafði vélin þá verið í um 20 mínútur í loftinu.
Lendingin gekk áfallalaust fyrir sig en þegar flugmennirnir voru að keyra vélinni að landganginum kviknaði í einum hreyflinum. Reykur og eldtungur sáust og farið var í neyðarrýmingu. Alls voru 172 farþegar um borð og 6 áhafnarmeðlimir.
Eins og sést á myndböndum sem fólk á flugvellinum tók þurftu farþegar að flýja út á væng vélarinnar til að komast frá eldinum og reyknum. Til að komast fyrir þurftu sumir þeirra að fara alveg út á enda vængsins.
Til að komast niður á jörðina voru settar út uppblásnar rennibrautir fyrir farþegana. Fyrir einhverja guðs mildi þá slasaðist enginn alvarlega í slysinu. Hins vegar voru 12 manns fluttir á spítala til aðhlynningar vegna minniháttar meiðsla.
Slökkvilið kom og náði að slökkva eldinn fljótt. Olli slysið engum töfum á öðrum flugum á vellinum.
„Við þökkum áhöfninni okkar, starfsfólki á Denver flugvelli og viðbragðsaðilum fyrir snögg og fumlaus viðbrögð til að tryggja öryggi allra þeirra sem voru um borð og á jörðinni líka,“ segir í tilkynningu American Airlines. Flugfélagið útvegaði aðra vél til þess að ferja farþegana til Dallas.
Flugmálastofnun Bandaríkjanna, FAA, rannsakar nú málið.
Slysið er eitt af fjölmörgum flugslysum í Norður Ameríku á undanförnum misserum. Hefur þetta valdið fólki áhyggjum af almennu flugöryggi.
Í janúar varð hræðilegt flugslys í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, þegar innanlandsflugvél American Airlines rakst á Black Hawk þyrlu Bandaríkjahers. 67 manns létust í slysinu og enginn komst lífs af.
Annað flugslys varð í Toronto þegar flugvél Delta brotlenti um miðjan febrúar mánuð. Flugvélin lenti á hvolfi og vængirnir rifnuðu af henni. Einhverra hluta vegna komust allir lifandi út úr vélinni.