Í Morgunblaðinu í dag er farið í saumana á málinu þar sem fram kemur að tilefni yfirlýsingarinnar sé uppákoma sem varð á starfsmannafundi fyrir tveimur vikum, föstudaginn 28. febrúar. Þar var starfsmaður rekinn fyrir framan samstarfsfólk sitt.
„Við undirrituð, starfsfólk Félagsbústaða, leitum nú til ykkar vegna vaxandi óánægju og ótta sem orsakast af starfsháttum Sigrúnar Árnadóttur framkvæmdastjóra. Vanlíðan starfsfólks hefur aukist undanfarin ár vegna óviðunandi stjórnarhátta hennar, skorts á virðingu og stuðningi, auk almenns óöryggis sem starfsmenn upplifa í daglegu starfi,“ segir í bréfi starfsmanna sem Morgunblaðið vitnar til.
Í fréttinni er einnig vitnað í bréf sem Eyþór Friðriksson, starfsmaðurinn sem mátti þola uppsögnina, skrifaði stjórninni þar sem hann greindi frá atburðinum á fyrrnefndum starfsmannafundi. Eyþór hafði unnið hjá Félagsbústöðum í tæp fjögur ár sem sérfræðingur nýbygginga.
Í bréfi sínu, sem Morgunblaðið vitnar til, kemur fram að honum hafi verið sagt upp störfum eftir að hann bar upp spurningar við Sigrúnu sem tengdust breyttu verklagi við tímaskráningar starfsfólks. Þá hafi hann óskað eftir viðbrögðum hennar við niðurstöðum úr „Stofnun ársins“ þar sem starfsánægja hafi mælst lítil.
„Augljóst var að spurningar þessar voru henni ekki þóknanlegar en þær voru á vörum langflestra starfsmanna á fundinum og ég fann mig knúinn til að spyrja þeirra. Viðbrögð hennar voru að kalla mig upp, á miðjum fundi, tala við mig af óvirðingu og dónaskap fyrir framan alla starfsmenn, teymdur tafarlaust inn í fundarherbergi með þjósti þar sem hún byrjaði á að segja að ég ætti að fara heim í dag. Svo bar hún upp hótun um að hún ætti kannski að segja mér upp, endurtók svo að hún ætlaði að segja mér upp og lauk svo samtali þessu með því að tilkynna mér tafarlausa uppsögn,“ segir í umræddu bréfi Eyþórs.
Hann segir að starfsfólk hafi fylgst agndofa með þessu.
„Mér var sýnd mikil niðurlæging af framferði Sigrúnar og ekki síður í eftirmálum þess þar sem hún vísaði mér á dyr með miklu offorsi eins og ég hefði gerst sekur um að brjóta af mér alvarlega í starfi og að mér væri ekki treystandi. Hún afhenti mér ruslapoka til að setja muni mína í og á meðan ég tók saman stóð hún ógnandi yfir mér, virti ekki persónulega fjarlægð á milli okkar og í eitt skipti stuggaði hún við mér! Óhætt er að segja að allt starfsfólk hafi fylgst agndofa með þessari uppákomu, upplifði mikinn óhug og stóð stuggur af. Stór hluti starfsfólks yfirgaf vinnustaðinn eftir þessa uppákomu til að sýna stuðning í verki gagnvart mér auk þess sem fólki var stórlega misboðið.“