Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að starfsfólk sviðsins og Breiðholtsskóla hafi lagt sig fram um að vinna á þeim ofbeldisvanda í skólanum sem hefur verið til umfjöllunar undanfarið.
Í tilkynningunni er bent á að stuðningur og sérkennsla hafi verið aukin í skólanum og hópaskiptingu breytt til að skapa meiri ró og vinnufrið. Útlistaðar eru ýmsar aðgerðir sem gripið hefur verið til í því augnamiði að vinna gegn vandanum, en tilkynningin er eftirfarandi:
„Starfsfólk skóla- og frístundasviðs og Breiðholtsskóla hefur lagt sig fram um að vinna á þeim vanda sem fjallað hefur verið um undanfarið.
Árás á barn sem átti sér stað utan skólatíma á miðvikudag er að sjálfsögðu litin mjög alvarlegum augum. Málið teygir anga sína út fyrir skólann en starfsfólk aðstoðaði lögreglu í gær við rannsóknina og mun leggja henni lið eftir þörfum.
Skóla- og frístundasvið vísar þeim ummælum á bug sem ítrekað hafa komið fram um að ekkert hafi verið aðhafst af hálfu skólans eða sviðsins vegna vandans sem hefur verið til umfjöllunar. Gripið hefur verið til ýmissa úrræða til að bæta skólastarfið og líðan nemenda í skólanum.
Skólastjórnendur telja að þær aðgerðir og þau úrræði bæði innan og utan skóla sem hafa komið til séu farin að skila árangri. Vinnufriður er mun betri í skólanum en áður og nemendum líður betur. Áfram verður unnið að auknum stuðningi og sérkennslu.
Aðkoma skóla- og frístundasviðs að börnum á þessum aldri, utan skólatíma, er helst í gegnum félagsmiðstöðvarnar í hverfinu og Flotann, flakkandi félagsmiðstöð sem starfar í borginni við að greina hvar von sé á hópamyndunum og hættu á slæmri unglingamenningu og bregðast við eftir megni. Það er gert í samvinnu við samfélagslögregluna auk þess sem nágrannasveitarfélögin hafa komið inn með starfsfólk um helgar þar sem unglingar hafa verið að safnast saman þvert á sveitarfélög.
Utan skólatíma fer almennt starf fyrir unglinga í borginni fram í þeim 25 félagsmiðstöðvum sem skóla- og frístundasvið rekur. Þar er boðið upp á uppbyggilegt frístundastarf fyrir 10–16 ára börn og unglinga. Sérstök áhersla er lögð á að ná til þeirra unglinga sem þarfnast félagslegs stuðnings og að bjóða upp á fjölbreytileg viðfangsefni.“