fbpx
Föstudagur 14.mars 2025
Fréttir

Félagi í Sósíalistaflokknum segir að sér hafi liðið sérkennilega eftir skyndifund flokksins í gærkvöld – „Þetta var mjög skrýtinn fundur“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 13. mars 2025 21:00

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félagi í Sósíalistaflokknum, sem vill ekki láta nafn síns getið, segir að skyndifundur flokksins sem haldinn var í höfuðstöðvum hans í Bolholti í gærkvöld, hafi verðið skrýtinn. „Þetta var mjög skrýtinn fundur, það var enginn fundarstjóri, enginn ritari og það var ekki vilji til að hafa mælendaskrá. Gunnar kallaði þetta upplýsingafund eða blaðamannafund. Ég hélt að það yrði streymt frá fundinum eins og vanalega og það kom mér á óvart að svo var ekki. Ég átti von á að það yrði skrifuð fundargerð en það var ekki. Þegar ég kom út af fundinum spurði ég mig: Hvað gerðist í rauninni? Þetta virkaði eins og tilgangslaus fundur, mér fannst þetta skrýtið.“

Að sögn mannsins var vel mætt á fundinn, telur hann að það hafi verið á bilinu 40 til 60 manns sem létu sjá sig.

Tilefni fundarins var harðorð yfirlýsing sem Karl Héðinn Kristjánsson, félagi í flokknum og frambjóðandi á lista hans í Reykjavík í síðustu kosningum, birti á Facebook-síðu sinni. Þar sakaði hann formanninn, Gunnar Smára, um andlegt ofbeldi, og flokkinn um skort á lýðræði. Segir hann að málefnavinna sem unnin var af hópi félaga í kjölfar kosningaósigur flokksins, sem fékk ekki mann kjörinn á þing, hafi verið hunsuð af framkvæmdastjórninni sem hafi í stað hennar hampað netkönnun sem sýnir ánægju flokksfélaga.

„Gagnrýni var afskrifuð sem fáfræði og niðurrifsstarfsemi, og enn á ný var reynt að þagga niður í þeim sem vilja bæta flokkinn undir formerkjum þess að þeir sem gagnrýni séu fáfróðir eða hreinlega illa innrættir. Ég tek fram að á vinnuhelginni kom fram sú hugmynd að gott væri að flokkurinn gerði tíðari skoðanakannanir á meðal félagsmanna en þær verður að hanna vísindilega svo þær mæli raunverulega það sem við viljum mæla. Og að hunsa vinnu virkrar grasrótar, stjórnarmanna og frambjóðenda úr Alþingiskosningunum á þennan máta eru ömurleg vinnubrögð,“ segir í pistli Karls.

 Gunnar Smári talaði í meira en klukkutíma

„Ég ber mikla virðingu fyrir Kalla [Karl Héðinn Kristjánsson], ég ber mikla virðingu fyrir Gunnari Smára og ég ber virðingu fyrir flokknum, en ég get ekki að því gert að mér leið eins og ég hefði verið á tilgangslausum fundi. Mér fannst þetta mjög skrýtið,“ segir viðmælandi DV.

Segir maðurinn að það hafi virkað eins og tilgangurinn með fundinum hafi verið eingöngu að svara bréfi Karls og loka síðan málinu. Ekki hafi verið gert ráð fyrir umræðum. Segir hann að Gunnar Smári hafi talað í 60-70 mínútur. Ekki hafi staðið til að hafa neinar umræður en óánægjuraddir á fundinum hafi knúið í gegn að leggja mátti fram spurningar til Gunnars Smára. Jafnframt fékk Karl að gera grein fyrir máli sínu í  um fimm til sjö mínútur. Flokksfélagarnir sem fengu að leggja fram fyrirspurnir voru 5-6 talsins.

Aðspurður segir maðurinn að fundurinn hafi staðið frá því um kl. 18 til 19:45. Samkvæmt því talaði Gunnar Smári meirihlutann af fundinum. „Já, en þetta er alltaf svoleiðis. Ég var t.d. í stjórn með honum og oftast voru stjórnarfundir með sömu tímahlutföll.“

Fáir gefa kost á sér

Að sögn mannsins hafa ekki átt sér stað kosningar um embætti innan flokksins í átta ár. Ástæðan sé sú að fólk gefi ekki kost á sér. „Þetta er eins og það var í Eflingu áður en Sólveig Anna var kjörin formaður, það hafði ekki komið mótframboð í 18 ár.“

Hann segir hins vegar óhjákvæmilegt að skipt verði um formann framkvæmdastjórnar á næsta aðalfundi þar sem skrifað sé í reglur flokksins að ekki megi sitja lengur í embætti en átta ár. „Flokksreglur eru samt flóknar, maður gefur ekki beint kost á sér í formannssæti heldur er kosið fólk í stjórn og síðan er skipað í einstök embætti á næsta stjórnarfundi.“

Hann ítrekar að fundurinn í gærkvöld hafi verið skrýtinn og ekki hafi setið eftir góð tilfinning eftir hann. „Fundurinn snerist bara um að segja að bréfið væri ekki rétt og nú væri málinu lokið. Það væri búið að lesa það, svara því og nú væri þetta búið. Þetta er ekki gott andrúmsloft að mæta í, að maður sem er með gagnrýni sé vandamál, í stað þess að horfa þannig á það að hann sé að koma fram með vandamál. Við þurftum líka að krefjast þess að hann fengi að svara fyrir sig, það var ekki gert ráð fyrir því að hann fengi það.“

Maðurinn segir skorta á að fylgt sé flokksreglum í starfinu. „Það væri kannski allt í lagi að láta þetta vera svona ef við værum að ná árangri. En við höfum ekki fengið mann kjörinn á þing, svo kannski er þetta ekki að virka nógu vel.“

DV sendi fyrirspurn á Gunnar Smára og spurði hvernig fundurinn hefði horft við honum. Einnig var hann spurður að því hvernig hann svaraði þeirri gagnrýni að skortur væri á lýðræði í Sósíalistaflokknum. Svör Gunnars Smára verða birt þegar þau berast.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Boltinn er hjá Rússum – Er líklegt að þeir samþykki vopnahlé?

Boltinn er hjá Rússum – Er líklegt að þeir samþykki vopnahlé?
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Bjargað eftir nokkurra daga svaðilför í Loðmundarfirði – Myndir og myndband

Bjargað eftir nokkurra daga svaðilför í Loðmundarfirði – Myndir og myndband
Fréttir
Í gær

Pipar\TBWA valin auglýsingastofa ársins annað árið í röð

Pipar\TBWA valin auglýsingastofa ársins annað árið í röð
Fréttir
Í gær

Ásthildur Lóa: „Við erum löngu hætt að gera ráð fyrir réttlæti hjá íslenskum dómstólum”

Ásthildur Lóa: „Við erum löngu hætt að gera ráð fyrir réttlæti hjá íslenskum dómstólum”