fbpx
Föstudagur 14.mars 2025
Fréttir

Bjargað eftir nokkurra daga svaðilför í Loðmundarfirði – Myndir og myndband

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 13. mars 2025 17:24

Mynd: Landsbjörg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að björgunarsveitir á Austurlandi hafi í morgun bjargað ferðamanni í Loðmundarfirði sem ekkert hafi spurst til síðan á laugardagskvöld. Óhætt er að segja að mikla svaðilför hafi verið að ræða en maðurinn dvaldi utandyra án þess að hafa nesti eða útilegubúnað meðferðis.

Í tilkynningunni segir að klukkan 10:50 í morgun hafi björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði verið kölluð út vegna ferðamanns sem ekkert hafði spurst til síðan á laugardagskvöld. Fljótlega voru fleiri sveitir boðaðar út, björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði Eystra og Gerpir á Norðfirði ásamt áhöfn björgunarskipsins Hafbjargar á Norðfirði.

Síðast hafi spurst til mannsins á laugardag, þegar hann fékk far út með Seyðisfirði að bóndabæ sem hann sagðist vera með gistingu á. Spor hafi sést á þeim slóðum sem virtust nýleg og lágu út með norðanverðum Seyðisfirði.

Leitinni hafi því verið beint að strandlengjunni þar og yfir í Loðmundarfjörð. Þar sé erfitt um fjarskipti og hafi Hafbjörg meðal annars verið notuð til að spegla fjarskipti í land til aðgerðastjórnar.

Bakpoki

Í tilkynningunni segir að fljótlega eftir að björgunarbátur frá Ísólfi og Hafbjörgin komu inn í Loðmundarfjörð, hafi sést bakpoki eða einhvers konar skjóða í fjörunni sem ákveðið var að skoða betur. Hafbjörg hafi þá verið komin innar í fjörðinn en björgunarbáturinn frá Ísólfi. Hafbjörginni var snúið við og báturinn frá Ísólfi fór að landi. Áhöfn Hafbjargar hafi sett dróna á loft og hann varla verið kominn á loft þegar björgunarmenn komu auga á manninn þar sem hann stóð á kletti í fjörunni og veifaði til þeirra.

Tekið er fram að það sé óhætt að segja að það hafi glatt björgunarfólk óumræðanlega að sjá manninn heilan á húfi.

Hann hafi verið sóttur í fjöruna af björgunarbát Ísólfs og fluttur um borð í Hafbjörgina sem lónaði þar rétt fyrir utan. Vel hafi gengið að komast að honum og björgunarbáturinn veri’ keyrður að lítilli skoru í klettinum þar sem hægt hafi verið að skorða stefni bátsins svo maðurinn kæmist að mestu auðveldlega um borð.

Ánægður

Í tilkynningunni  kemur fram að það hafi verið afar ánægður ferðalangur sem settist niður í Hafbjörginni og fékk heita súpu og orkudrykk til að næra sig á, en hann hafi þá verið á ferðinni síðan á sunnudag, sofið undir berum himni þar sem frost fór niður í að minnsta kosti 2 gráður, án svefnpoka eða tjalds.

Hann hafði ekki heldur neitt nesti að ráði meðferðis og hafði nært sig á jurtum sem hann taldi ætar og næringaríkar sem hann fann ásamt því að drekka vatn.

Maðurinn sagði við björgunarmenn að hann hefði reynt að ná athygli fiskibáta með því að blikka vasaljósi sem hann hafði meðferðis, án árangurs, en þegar hann sá björgunarskipið og bátinn sigla inn Loðmundarfjörð, var hann þess fullviss að nú yrði honum bjargað.

Að lokum kemur fram að ferðamaðurinn var svo fluttur til Neskaupstaðar og á fjórðungssjúkrahúsið þar til aðhlynningar.

Myndir og myndband frá björguninni má sjá hér fyrir neðan.

Mynd: Landsbjörg
Mynd: Landsbjörg
Mynd: Landsbjörg
Mynd: Landsbjörg
Mynd: Landsbjörg

 

video
play-sharp-fill
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Tilkynna auglýsingu smálánafyrirtækis um fría Tenerife ferð – „Okkur finnst þetta vera siðlaus markaðssetning“

Tilkynna auglýsingu smálánafyrirtækis um fría Tenerife ferð – „Okkur finnst þetta vera siðlaus markaðssetning“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Samband íslenskra sveitafélaga semur við Syndis

Samband íslenskra sveitafélaga semur við Syndis
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Björk segir Spotify það versta sem komið hafi fyrir tónlistarfólk – Þetta var borgað út á síðasta ári

Björk segir Spotify það versta sem komið hafi fyrir tónlistarfólk – Þetta var borgað út á síðasta ári
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Pipar\TBWA valin auglýsingastofa ársins annað árið í röð

Pipar\TBWA valin auglýsingastofa ársins annað árið í röð
Fréttir
Í gær

Kona ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í Hafnarfirði og krafin um fjórar milljónir króna

Kona ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í Hafnarfirði og krafin um fjórar milljónir króna
Fréttir
Í gær

Leikarar í Borgarleikhúsinu fara í verkfall – Þetta eru dagarnir

Leikarar í Borgarleikhúsinu fara í verkfall – Þetta eru dagarnir
Hide picture