Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands, telur tálbeituaðgerðir óheppilegar og varasamar, jafnvel þegar lögregla beiti þeim, hvað þá þegar óbreyttir borgarar taka með þeim lögin í sínar hendur.
DV hefur staðfestar heimildir fyrir því að tálbeituhópar tengist árás á 65 ára gamlan mann frá Þorlákshöfn sem lést af völdum misþyrminga í byrjun vikunnar. Rétt er hins vegar að taka fram að enn er margt á huldu varðandi málsatvik og ekkert liggur fyrir sem bendir til að árásarþolinn hafi gerst sekur um brot af því tagi sem tálbeituhópar af þessu tagi gera að skotmarki sínu.
DV fjallaði töluvert um aðgerðir tálbeituhópa fyrr á árinu og kom fram í viðtölum við slíka aðila að þeir stunduðu ekki fjárkúgun og markmiðið með aðgerðunum væri ekki að auðgast heldur afhjúpa barnaníðinga. Ljóst er að annað hvort hefur eitthvað skolast til hvað þessi prinsipp varðar eða reglur og vinnubrögð tálbeituhópanna eru mismunandi frá einum hópi til annars, því samkvæmt áreiðanlegum heimildum kom fjárkúgun við sögu í árásinni á manninn frá Þorlákshöfn.
Samkvæmt heimildum DV lét maðurinn náinn aðstandanda leggja um þrjár milljónir króna inn á reikning árásarmannanna. Hann neitaði þeim hins vegar í fyrstu um greiðslu. Ljóst er að það varð honum ekki til lífsbjargar að láta undan fjárkúguninni.
Helgi segir að lögregla notist aðeins við tálbeitur í algjörum undantekningartilfellum:
„Það eru þröng skilyrði fyrir lögreglu að styðjast við tálbeitur, þær má ekki nota nema í undantekningartilfellum, hvað þá venjulegir borgarar sem ekki er það heimilt. Lögregla má ekki narra borgarana til brota, það er ein meginástæðan. Frægasta tálbeitumálið er frá 1992. Lögregla gerði þá samkomulag við einstakling sem dæmdur var til fangelsisvistar um að kaupa kókaín frá samfanga. Dómstólar töldu þetta vafasamt og tiltóku að ekki mætti nýta borgara í tálbeitur, hvað þá sakamenn, en þjálfuð lögregla með þröngum skilyrðum gæti það. Lögreglan slapp naumlega með málið.“
Helgi segir að óheimilt sé að narra almenna borgara til afbrota, eins og tálbeituaðgerðir geta falið í sér. „Venjulegir borgarar eru narraðir til brota sem þeir myndu annars ekki fremja, eða eru jafnvel saklausir með öllu, en eru teknir fyrir eða álitnir vera brotamenn. Þegar samfélagsleg fordæming á athæfinu er mikil, eins og gagnvart barnaníði, er ætíð hætta á að borgararnir taki til sinna ráða og veiti þeim makleg málagjöld, þar sem talið er að réttarkerfið hafi brugðist hvað það varðar. Tálbeiturnar verða eins konar riddarar réttlætisins og telja réttlætanlegt að jafna um þá sem eiga ekkert gott skilið. En meintir eða dæmdir gerendur kynferðisbrota verða líka skotmörk fyrir fjárkúgun og ef þeir borga ekki er gengið í skrokk á þeim.“
Helgi telur þetta sýna að opinber skráning kynferðisbrotamanna sé varasöm:
„Þetta er líka ákveðið hættumerki fyrir opinbera skráningu kynferðisbrotamanna, að það verði einfaldlega ráðist á þá, af því þeir eigi ekki skilið neitt annað, hafi framið verstu glæpi sem til er, eins og barnaníð. En villta vestrið leysir ekki málin og notkun tálbeitu er varasöm og er það jafnvel fyrir lögregluna líka. Réttarkerfið er ekki fullkomið en það er samt það skásta sem við höfum og tekur breytingum sem eiga að styrkja réttarstöðu bæði þolenda og gerenda.“
Helgi rifjar upp frægt tálbeitumál frá áttunda áratug síðustu aldar, sem hann segir sýna að dómstólar taki hart á málum sem fela í sér tálbeitunotkun.
„Batta-rauða málið er frægt tálbeitumál frá áttunda áratugnum. Lögregla fékk tvær stúlkur til að taka leigubíl og hafði komið fyrir áfengisflöskum í skottinu, til að sýna fram á leynivínsölu bílstjórans. Lögreglumaðurinn sem stóð fyrir þessu fékk dóm, þurfti að sitja inni og missti starfið. Þetta sýnir hversu alvarlega dómstólar taka á málum af þessu tagi sem fela í sér tálbeitur.“