Nú stendur yfir skyndifundur hjá Sósíalistaflokki Íslands eftir að Karl Héðinn Kristjánsson, fræðslu- og félagsmálafulltrúi Eflingar, sagði sig úr kosningastjórn út af óánægju með innra starf flokksins. Beindi Karl Héðinn sérstaklega spjótum sínum að formanni framkvæmdastjórnar, Gunnari Smára Egilssyni. Gunnar brást við málinu með því að boða til skyndifundar í húsnæði flokksins í Bolholti sem hófst núna klukkan 18:00. Áður en fundurinn hófst birtist þó tilkynning í Facebook-hópi flokksins, Rauða þræðinum. Þar var ásökunum Karls Héðins vísað á bug en tilkynningin gerði ekkert til að lægja öldurnar heldur virkaði þvert á móti sem olía á eldinn.
Tilkynningin stafaði frá formönnum stjórna flokksins og þar sagði:
„Við höfnum ásökunum Karls Héðins Kristjánssonar, sem birti í dag póst um afsögn sína úr kosningastjórn flokksins sl. helgi, um að „hunsa lýðræðislega gagnrýni, viðhalda óheilbrigðri menningu og refsa þeim sem benda á vandamálin.“
Sósíalistaflokkurinn sendi nýverið út könnun meðal félaga um ánægju þeirra með flokksstarfið, stefnuna og þau áhrif sem flokkurinn hefur haft á samfélagsumræðu sl. ár. Almenn ánægja þeirra 15% félaga sem svöruðu var yfir 90% í öllum spurningum nema um niðurstöður kosninganna. Vinnufundur kosningarstjórnar, sem Karl Héðinn vísar til, sátu 1,5% félaga.
Niðurstöður félagskönnunarinnar sýna því að almenn ánægja ríkir um starf Sósíalistaflokksins og endurspegla engan veginn vantraust á formann framkvæmdastjórnar, Gunnar Smára Egilsson.
Sósíalistaflokkur Íslands er breiðfylking fólks sem byggir á grasrótarstarfi og lýðræðislegum vinnubrögðum sem hægt er að kynna sér á sosialistaflokkurinn.is
Sara Stef. Hildardóttir, varaformaður framkvæmdastjórnar
María Pétursdóttir, formaður málefnastjórnar
Sanna Magdalena Mörtudóttir, formaður kosningastjórnar“
Félagar úr grasrót flokksins áttu hreinlega ekki orð yfir þessari tilkynningu. Hún sé í nafni formanna stjórna flokksins og lögð fram án nokkurs samráðs við aðra stjórnarmenn.
Sæþór Benjamín Randalsson, stjórnarmaður í Eflingu, situr í framkvæmdastjórn en hann skrifar í athugasemd: „Eru nú fundir sem eru haldnir án annarra stjórnarmanna? Ég er í framkvæmdastjórn og var ekki með í þessu samtali. Er þessi tilskipun gefin út eins og allir stjórnarmenn hafi samþykkt þá?“
Sara Stef Hildardóttir svaraði og tók fram að tilkynningin væri í nafni formanna stjórnanna en ekki stjórnanna sjálfra. Ekki þótti félagsmönnum sú skýring forsvaranleg og gerðu athugasemdir við að ekkert samráð var haft við aðra stjórnarmenn og eins lýsti fólk furðu með að tilkynningin hafi yfir höfuð verið birt þetta stuttu fyrir skyndifundinn.
Trausti Breiðfjörð Magnússon, fyrrum borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, gerði athugasemd við efni tilkynningarinnar. Þar sé annars vegar vísað í könnum sem var lögð fyrir félagsmenn og hins vegar í niðurstöðu fundar kosningastjórnar. Formenn stjórnanna geri mikið úr skoðanakönnuninni, sem hafi verið meingölluð og fegrað stöðu flokksins fyrir félagsmönnum sem ekki eru virkir í starfinu. Á sama tíma sé gert lítið úr fundi kosningastjórnar og þeirri vinnu sem fór þar fram.
„Það sem ég hef verið að heyra, er að ekki eigi að taka mark á þeirri vinnu. Það er skandall að ekki sé tekið mark á félögunum, og ýtir enn frekar undir þær athugasemdir að flokkurinn hlusti ekki á grasrótina.“
Trausti sagði að gott væri að fá að rýna niðurstöðurnar úr þessari skoðanakönnun betur og þær athugasemdir sem mögulega kæmu þar fram. „Þetta hljómar mjög úr takti við allt það sem ég hef verið að heyra hjá því fólki sem tekur þátt í starfinu. Þar er mikil óánægja með það hvernig hlutir eru unnir, og það hvernig brugðist er við því þegar fólk kemur með gagnrýni. Það má ekki spyrja mjög valid spurninga án þess að menn séu sakaðir um „valdsækni“ eða einhverja þvælu sem kemur málinu ekkert við, þegar stjórnin hefur engin svör.“
Eins hafi undir rós verið talað um að virkja Samviskuna, slembivalda nefnd félagsmanna, til að reka fólk úr flokknum fyrir að ala á óeiningu. Trausti segir að lokum: „Held það sé einfaldlega kominn tími til að sýna smá auðmýkt og hætta þessari vörn sem flestir eru farnir að sjá í gegnum. Mér finnst grátlegt að vera sjálfur byrjaður að taka þátt í þessum átökum, en það er nauðsynlegt í ljósi stöðunnar að verja gott fólk sem verður fyrir árásum, fyrir það eitt að vilja gera flokkinn betri af einlægni.“
Aðrir velta því fyrir sér til hvers þessi vinnufundur var haldinn ef ekki stóð til að taka mark á hönum út af dræmri mætingu. Eins voru formenn stjórnanna skammaðir fyrir að bregðast ekki við ásökunum Karls Héðins um launaþjófnað á Samstöðinni. Sara Stef Hildardóttir benti á að það er Samstöðin sem borgar laun fyrir það starf sem þar fer fram en ekki flokkurinn. Enginn sé á launum hjá Sósíalistaflokki Íslands.
Fyrrum þingmaðurinn Þór Saari skrifaði til Karls Héðins og hrósaði honum fyrir gott starf. Hann tók þó fram að hann hafi sjálfur verið hugsi undanfarið yfir framtíð flokksins„sem grasrótardrifins umbótaafls vegna ýmissa illáþreifanlegra atvika sem bera einmitt keim af því „klíkuræði“ sem þú lýsir.“
Flokkurinn hafi þegar klúðrað tveimur dauðfærum að komast inn á þing en að mati Þórs má rekja það fyrst og fremst til ábyrgðarleysis við uppstillingu á lista flokksins sem og vegna skorts á fjármagni í kosningabaráttu. Líklega fái flokkurinn ekki fleiri færi þó enn gangi ágætlega í borginni. Nú sé flokkurinn þó í meirihluta þar og sé nú þegar sökkvandi skip. Til að rétta úr kútnum þurfi að „spila rétt og klókt“