fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
Fréttir

Kvikmyndagerðarmenn þurftu að endurgreiða tugi milljóna

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 12. mars 2025 15:30

Kvikmyndamiðstöð Íslands er staðsett í sama húsnæði og Bíó Paradís.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningar – og viðskiptaráðuneytið, sem senn verður lagt niður, hefur staðfest ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands frá árinu 2020 um að afturkalla styrk sem hafði verið veittur til framleiðslu kvikmyndar. Byggði afturköllunin helst á því að tökur hefðu gengið of hægt og að of miklar breytingar hafi verið gerðar á verkefninu eftir að styrkurinn var veittur.

Ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar er frá því í ágúst 2020. Kvikmyndagerðarmennirnir endurgreiddu fjármuni sem þeir höfðu þegar fengið greidda í september og nóvember 2020. Sama dag og endurgreiðslu var lokið kærðu þeir ákvörðunina til mennta- og menningarráðuneytisins en menningar og viðskiptaráðuneytið tók síðan við málinu. Kæran var því í rúmlega fjögur og hálft ár til meðferðar í stjórnkerfinu.

Í úrskurði menningar- og viðskiptaráðuneytisins er málavöxtum lýst með ítarlegum hætti.

Upphaflega var sótt um framleiðslustyrk árið 2016 og veitti Kvikmyndamiðstöð vilyrði fyrir styrknum árið 2018. Í lok árs 2019 gerðu framleiðslufyrirtæki myndarinnar og Kvikmyndamiðstöð loks með sér úthlutunarsamning sem kvað á um að alls myndi framleiðslustyrkurinn nema 110 milljónum króna og vísað var í reglugerð sem kveður á um að slíkir styrkir skuli greiddir í þrennu lagi. Samkvæmt samningnum átti aðaltökutímabil að hefjast sama dag og hann var gerður. Samkvæmt samningnum var ekki heimilt að gera verulegar breytingar á framleiðslu verkefnisins, svo sem handriti, kostnaði og réttindum nema með skriflegu samþykki Kvikmyndamiðstöðvar. Samningurinn kvað enn fremur á um endurgreiðslu ef gerð kvikmyndarinnar yrði ekki lokið innan þess tíma sem framleiðsluáætlun gerði ráð fyrir, sem var í október 2020.

Gengu á eftir

Næstu mánuði óskaði Kvikmyndamiðstöð ítrekað eftir upplýsingum um stöðu verkefnisins. Í mars 2020 kom í ljós að aðeins þremur tökudögum var lokið og ætlunin væri að halda áfram í september. Í kjölfarið voru kvikmyndagerðarmennirnir upplýstir um að til skoðunar væri að krefjast endurgreiðslu á styrknum en hann yrði þá endurgreiddur þeim þegar raunverulegt aðaltökutímabil hæfist, ef sú yrði raunin á næstu mánuðum. Vildi miðstöðin meina að brotið hefði verið gegn samningnum um framleiðslustyrkinn.

Skýringar kvikmyndagerðarmannanna, sem vísuðu meðal annars til áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins, breyttu engu þar um.

Í maí 2020 óskaði Kvikmyndamiðstöð formlega eftir endurgreiðslu á 72 milljónum króna ásamt ítarlegum upplýsingum um framtíð verkefnisins. Yrðu fjármunirnir endurgreiddir þegar aðaltökutímabil hæfist og viðauki gerður við úthlutunarsamninginn.

Drög að viðaukanum gengu á milli miðstöðvarinnar og lögmanns framleiðslufyrirtækis kvikmyndarinnar en áður en til undirritunar kom sagði leikstjórinn sig frá gerð myndarinnar og viku síðar tilkynnti Kvikmyndamiðstöðin að úthlutunarsamningnum um styrkinn yrði rift og krafist var endurgreiðslu. Riftunin var staðfest eins og áður segir í ágúst 2020 og kærði framleiðslufyrirtækið ákvörðunina í kjölfarið en endurgreiddi styrkinn.

Tilefni

Í kærunni var því meðal annars haldið fram að afturköllun styrksins hefði verið tilefnislaus. Því var hafnað að verulegar breytingar hafi verið gerðar á handriti gagnstætt ákvæðum samningsins. Til stæði að taka myndina upp eftir handriti sem væri í fullu samræmi við styrkumsóknina. Enn fremur væru fullyrðingar Kvikmyndamiðstöðvar um að annar handritshöfunda væri ekki lengur höfundur myndarinnar rangar. Aðaltökutímabil hefði hafist á þeim tíma sem samningurinn kvað á um en ýmislegt hafi tafið tökurnar. Engu breytti þótt aðaltökumaður hafi ekki verið viðstaddur. Fullyrðingar um að leikstjóri myndarinnar hafi nánast ekkert komið nálægt tökunum væru enn fremur rangar. Vildi framleiðslufyrirtækið meina að það hefði ekki notið jafnræðis á við aðra kvikmyndaframleiðendur vegna áhrifa Covid19- heimsfaraldursins. Sömuleiðis væri enginn grundvöllur fyrir því að afturkalla styrkinn vegna þess að leikstjórinn hefði sagt sig frá verkefninu. Ekkert lægi fyrir sem sýndi fram á að um vanefnd væri að ræða af hálfu framleiðenda myndarinnar.

Vildu framleiðendurnir meina að málið hefði ekki verið rannsakað eins og stjórnsýslulög kveði á um, af hálfu Kvikmyndamiðstöðvar.

Kvikmyndamiðstöð vildi hins vegar meina að samningurinn hefði verið skýr. Aðaltökutímabil hafi átt að vera í desember 2019 og janúar 2020. Klippingu átti að ljúka í júní og frumsýning átti að vera í október. Aldrei hafi það áður gerst að aðaltökur hæfust ekki í beinu framhaldi af útgreiðslu styrks. Það stæðist ekki að þrír tökudagar án aðaltökumanns teldust vera upphaf aðaltökutímabils. Framleiðendurnir hafi þó fengið að njóta vafans og þess vegna hafi staðið til að gera viðauka við samninginn svo hægt væri að fá styrkinn endurgreiddan en greiða hann aftur út þegar aðaltökur sannarlega hæfust. Þegar leikstjórinn hafi sagt sig frá myndinni hafi hins vegar verið talið eðlilegast að rifta samningnum og krefjast endurgreiðslu. Svo miklar breytingar hefðu orðið á verkefninu frá úthlutun styrksins að eðlilegast hafi þótt að lögð yrði fram ný umsókn. Framleiðendur hafi enn fremur veitt þær upplýsingar að notað yrði handrit við tökur sem hefði ekki fylgt upphaflegri umsókn. Það væri ekki eðlilegt.

Afturköllun eða riftun

Í málinu var einnig mjög deilt um hvort um hefði verið um að ræða riftun eða afturköllun stjórnvaldsákvörðunar. Er það niðurstaða menningar- og viðskiptaráðuneytisins að Kvikmyndamiðstöð hafi í málinu ekki gert greinarmun á þessu tvennu en þó virðist hafa verið um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar að ræða.

Ráðuneytið segir það óumdeilt að samningur milli aðila hafi kveðið á um hvenær tökur ættu að standa yfir og hvenær frumsýna ætti myndina. Þetta hafi ekki gengið eftir. Fellst ráðuneytið á þau rök Kvikmyndamiðstöðvar að þessir þrír tökudagar sem fóru fram án aðaltökumanns geti ekki talist til aðaltökutímabils.

Þar sem ákvörðun um úthlutun styrksins hafi byggst á gögnum og yfirlýsingum frá framleiðendum myndarinnar sem hafi svo ekki staðist hafi Kvikmyndamiðstöð verið heimilt að afturkalla ákvörðun sína um að styrkja gerð myndarinnar.

Segir ráðuneytið ákvörðunina hafa verið í samræmi við meðalhóf, jafnræðisreglu og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Ljóst er því að ekkert verður af því að styrkurinn verði aftur greiddur út til framleiðenda myndarinnar eins og þeir fóru fram á.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Manndrápsmálið: Gæsluvarðhalds krafist – Búið að leiða einn fyrir dómara

Manndrápsmálið: Gæsluvarðhalds krafist – Búið að leiða einn fyrir dómara
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Lögregla lýsir eftir Jakub Chojnowski

Lögregla lýsir eftir Jakub Chojnowski
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Íslendingar steinhissa á Trump: „Þetta á eftir að enda með einhverjum ferlegum ósköpum“

Íslendingar steinhissa á Trump: „Þetta á eftir að enda með einhverjum ferlegum ósköpum“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segir að svona geti Evrópa varið sig án stuðnings Bandaríkjanna

Segir að svona geti Evrópa varið sig án stuðnings Bandaríkjanna