Félögin Geðverndarfélag Íslands (Geðvernd) og Samband íslenskra berklasjúklinga (SÍBS) hafa árum saman deilt um eignarrétt að þremur smáhýsum á Reykjalundi í Mosfellsbæ. Geðvernd byggði húsin á lóð SÍBS með samningi frá 1967, sem m.a. kveður á um að húsin skuli seld ef þjónusta breytist eða hætti, og að andvirði þeirra skuli ráðstafað til geðverndar. Deilurnar hafa ítrekað lent á borði dómstóla, meðal annars með úrskurði Landsréttar sem féll í dag.
Geðvernd vill viðurkenndan eignarrétt sinn að húsunum. Samningurinn frá 1967 sé fallinn úr gildi þar sem Reykjalundur sé ekki lengur að sinna þeirri geðvernd sem lagt var upp með. Geðvernd vill jafnframt að SÍBS kaupi húsin eða greiði leigu fyrir afnot þeirra. SÍBS hefur mótmælt þessari kröfu og krefst sömuleiðis viðurkenningar eignarréttar enda hafi SÍBS rekið og haft óskert umráð húsanna í rúmlega hálfa öld. Landsréttur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn væri enn í fullu gildi og þó svo að starfsemi beggja félaga hafi breyst í gegnum árin þá sé óumdeilt að Reykjalundur þjónustar enn fólk með geðrænar áskoranir.
Landsréttur sagði að Geðvernd eigi fasteignirnar, enda komi hvergi fram að þau hafi verið gjöf til SÍBS. Að sama skapi komi ekkert fram sem gefi til kynna að forsendur samningsins séu brostnar og auk þess á SÍBS lóðirnar undir hýsunum.
„Þótt það sé engum vafa undirorpið að starfsemi bæði stefnanda og stefnda hafi tekið miklum breytingum á þeim tíma sem liðinn er frá undirritun samnings aðila þann 26. september 1967, þá virðist eigi að síður ljóst að geðsjúklingum sé enn sinnt á Reykjalundi. Þannig má meðal annars ráða af samningi Sjúkratrygginga Íslands við Reykjalund, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, dagsettum 5. mars 2020, sem frammi liggur í málinu, að á Reykjalundi sé starfrækt sérstakt geðheilsusvið enn þann dag í dag.“
Sýslumaður skráði þá SÍBS þinglýstan eiganda eignanna, en þeirri ákvörðun hefur verið skotið til dómstóla. Aftur freistaði Geðvernd þess að fá eignarréttinn viðurkenndan, að samningurinn væri ógildur og að SÍBS ætti jafnvel að greiða leigu fyrir afnot eignanna. Vísaði Geðvernd að þessu sinni til sanngirnissjónarmiða samningaréttar og til brostinna forsendna. Hvorki héraðsdómur né Landsréttur tóku undir með Geðvernd og var málinu vísað frá á báðum dómstigum. Samningurinn lifir því enn og enn eru Geðvernd og SÍBS í þeirri óþægilegu stöðu að Geðvernd á eignirnar en getur ekkert gert við þær, SÍBS hefur ótakmörkaðan afnotarétt og á jafnframt lóðirnar undir húsunum. Má því álykta að málinu sé ekki lokið og að næst muni dómstólar þurfa að taka samninginn og einstök atkvæði hans til nánari skoðunar.