Eins og DV hefur greint frá hefur sami einstaklingur í Vestmannaeyjum sent hundruð fyrirspurna ár hvert til bæjaryfirvalda en viðkomandi hefur spurst fyrir um ýmislegt sem tengist starfsemi bæjarins. Á árinu 2023 voru fyrirspurnirnar 348 en á síðasta ári fækkaði þeim niður í 219. Um er að ræða karlmann sem ekki er nafngreindur í fundargerðum bæjarráðs, þar sem tilgreint er hversu margar fyrirspurnirnar hafa verið, en vel þekkt er í Eyjum hver þessi sívirki fyrirspyrjandi er. Maðurinn hefur verið sakaður opinberlega um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum en samkvæmt upplýsingum DV hefur hann ekki hlotið dóm fyrir hin meintu brot.
Virðist ekki fá nóg af því að senda Vestmannaeyjabæ fyrirspurnir
Sama manneskjan sendi Vestmannaeyjabæ fyrirspurn nánast á hverjum degi í heilt ár
Á síðasta ári sakaði Sigurjón Ingvarsson, íbúi í Vestmannaeyjum, manninn opinberlega um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, í grein í fjölmiðlinum Tígli sem sérhæfir sig í fréttum frá Eyjum. Sagði Sigurjón í greininni að með hreinum ólíkindum væri að sífelldar spurningar mannsins til bæjarins væru umbornar ekki síst í ljósi þess hversu mikil vinna færi í að svara þeim.
„Hann heldur að hann sé samfélagslögregla í bæjarfélaginu.“
Sigurjón sagðist í greininni hafa fengið brot mannsins staðfest frá þolanda hans:
„Það er sorglegt en þannig gerist þegar brotið er gegn börnum. Það er liðinn nokkur tími frá því að mér barst til eyrna að hann væri ekki alveg með hreina samvisku. Fékk það svo staðfest … Það hefur átt erfiðan stað í huga mér.“
Sigurjón sagðist í grein sinni vilja rjúfa þá þöggun sem ríkt hefði um brot mannsins og hlaut hann nokkurt hrós í athugasemdum þegar hann endurbirti hana á Facebook-síðu sinni:
„Orð í tíma töluð.“
Virðist því sem að fleiri séu meðvitaðir um meint brot fyrirspyrjandans. Óljóst er þó hversu útbreidd vitneskjan um meint brot mannsins er meðal bæjarbúa í Vestmannaeyjum en sú vitneskja mun þó ekki vera almenn í bænum.
Í samtali við DV greinir Sigurjón frá því að hann þekki persónulega til manns sem hafi á barnsaldri orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu fyrirspyrjandans. Sigurjón frétti fyrst af því á síðasta ári og segir að þá hafi hann orðið verulega reiður. Hann hafi í kjölfarið rætt við þolandann og viti einnig um annað dæmi um brot fyrirspyrjandans. Eftir þessar samræður við þolandann hafi hann ákveðið að skrifa umrædda grein í Tígul.
Hin opinbera ásökun Sigurjóns hefur hingað til ekki haft neinar afleiðingar í för með sér en maðurinn fór ekki í meiðyrðamál við hann í kjölfar birtingar greinarinnar. Sigurjón telur það gefa vísbendingar um að töluvert sé til í ásökununum:
„Af hverju gerir hann það ekki? Ég myndi kæra einhvern sem myndi ásaka mig um svona ef ég væri saklaus.“
Sigurjón segist hafa verið spurður af mörgum í kjölfar birtingar greinarinnar hvernig hann hafi þorað að skrifa hana. Svarið hafi verið einfalt:
„Ég hef ekkert að óttast í þessu, ekki neitt.“
Sigurjón minnir á að fyrir marga þolendur í svona málum séu það þung skref að leggja fram kæru. Óljóst virðist því hvort að meint brot mannsins séu til rannsóknar hjá lögreglu en Sigurjón segist hafa nóg í höndunum á manninn og óttist því ekki neitt.
Aðspurður segir Sigurjón að eitthvað hafi verið rætt í bænum um meint brot mannsins gegn börnum en það hafi bara enginn þorað að stíga fram en eins og áður kom fram er ekki fyllilega ljóst hversu útbreidd vitneskjan um hin meintu brot er meðal bæjarbúa. Sigurjón segist hins vegar hafa fengið nóg þegar hann ræddi við áðurnefndan þolanda sem eins og áður segir hann þekkir persónulega.
Auk þess þolanda segist Sigurjón vita um einn annan mann sem hafi á barnsaldri orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu fyrirspyrjandans en hann hafi ekki sjálfur rætt um það beint við síðarnefnda þolandann. Sigurjón segir að það sé mögulegt að þolendur mannsins séu fleiri en þessir tveir en hversu margir þeir nákvæmlega eru sé ekki vitað á þessari stundu:
„Því það er enginn að flagga þessu.“
Umræddir þolendur eru karlkyns en Sigurjón segist hafa haft spurnir af því að maðurinn hafi beint spjótum sínum einnig að stúlkum. Maðurinn er á sjötugsaldri og Sigurjón segist hafa heyrt það að stúlku, sem hafi verið um 6-8 ára gömul, hafi naumlega verið bjargað undan manninum. Sá atburður hafi átt sér stað fyrir eldgosið í Heimaey 1973, þegar maðurinn var á táningsaldri. Meint brot hans virðast því ná hálfa öld aftur í tímann.
Sigurjón leggur áherslu á að það séu yfirleitt ekki í svona tilfellum allir þolendur sem stigi fram og hann sýni því fullan skilning.
Það er því mögulegt að seint fáist upplýst að fullu hversu umfangsmikil meint brot fyrirspyrjandans eru.
Sigurjón er hins vegar hvergi banginn en segist skilja það að aðrir skuli ekki vilja ræða mál af þessu tagi opinberlega.
Sigurjóni gremst það verulega að það sé umborið að maðurinn skuli senda í sífellu fyrirspurnir til Vestmannaeyjabæjar og þar að auki sé maðurinn iðulega að ausa úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlum yfir ástandi mála í bæjarfélaginu. Hann segir að flestar fyrirspurnirnar snúist um eitthvað sem skipti litlu máli. Sigurjón telur hins vegar líklegt að maðurinn sé ekki að taka það alfarið upp hjá sjálfum sér að senda hundruð fyrirspurna til bæjarins ár hvert:
„Menn sem eru að mata hann á einhverri vitleysu til að beita honum fyrir sig.“
Sigurjón vill meina að einhverjir sjái sér hag í hinum sífelldu fyrirspurnum mannsins og ljóst sé að hluti fyrirspurnanna, að minnsta kosti, hafi snúist um viðfangsefni sem maðurinn hafi ekki haft neina þekkingu á eða vitneskju um og því hljóti í þeim tilfellum upplýsingum um efni fyrirspurnanna hafa verið beint frá einhverjum öðrum til mannsins.
Spurningaflóðið frá manninum hefur staðið árum saman og ekkert verið bundið við hvaða flokkar hafa verið í meirihluta í bæjarstjórn hverju sinni.
Sigurjón telur ekki ólíklegt að sú fækkun sem varð á síðasta ári á fjölda fyrirspurna mannsins, frá árinu 2023, hafi eitthvað haft með áðurnefnda grein hans í Tígli að gera. Hann segir einnig að maðurinn hafi lítið sést á gangi um bæinn eftir birtingu greinarinnar sem sé breyting frá því sem áður var.
Fyrirspyrjandinn hefur búið á sjúkrastofnun í Vestmannaeyjum undanfarin ár og segir Sigurjón ljóst að það kosti skattgreiðendur töluverða fjármuni á hverju ári:
„Hann á ekkert gott skilið, þessi maður.“