Bresk hjón á sjötugs og áttræðisaldri voru lamin í hakkabuff af nágrönnum sínum í Tælandi. Engu að síður gætu þau átt fangelsisvist yfir höfði sér.
Greint er frá þessu í breska ríkisútvarpinu, BBC.
Hjónin heita Mary Byrne, 69 ára hjúkrunarfræðingur, og Desmond Byrne, 77 ára verkfræðingur. Þau eru upprunalega frá iðnaðarborginni Middlesbrough í norðausturhluta Bretlands en fluttu til Tælands til að setjast í helgan stein árið 2021. Nú er hins vegar eftirlaunafriðurinn úti.
Desmond og Mary keyptu hús á „tælensku rivíerunni“, eða Hu Hina héraði í suðurhluta landsins. Þar lentu þau hins vegar upp á kant við nágranna sína, fólk á fimmtugsaldri, vegna aðgengismála á lóðinni.
Einn dag í desember árið 2023 sprakk allt í loft upp. Bresku hjónin heyrðu mikil læti úti í garði og þegar þau komu þangað sáu þau nágranna sína að rífa upp plöntur í garðinum. Þegar þau skipuðu nágrönnunum að hætta réðust þeir á hjónin og lömdu í klessu.
Leikurinn var ansi ójafn. Ekki aðeins voru nágrannarnir 20 til 30 árum yngri heldur var parið einnig þjálfað í tælenskum hnefaleikum og mjög vel á sig komið líkamlega.
Maðurinn stökk á Desmond og kýldi hann kaldann. Féll gamli maðurinn í jörðina en hinn tælenski boxari hélt áfram að láta höggum rigna á hann, 22 í heildina.
Á sama tíma réðist nágrannakonan á Mary, kýldi hana og sparkaði í þangað til hún féll í blómabeð. En barsmíðunum lauk ekki þar heldur traðkaði og stappaði konan þá á gömlu konunni.
Eins og sést á myndum sem fylgja þessari frétt voru hjónin mjög illa útleikin eftir árásina. Ekki nóg með það þá hefur Mary Byrne átt við hjartavandamál að stríða eftir þennan örlagaríka dag.
Lögregla kom og handtók nágrannana sem neituðu upphaflega sök. Í ágúst síðastliðnum játuðu þau loks og voru dæmd til að borga hjónunum miskabætur.
En nágrannarnir höfðu einnig kært Byrne hjónin til lögreglunnar, fyrir líkamsárás og andlegt ofbeldi.
„Á einum tímapunkti setti Des fótinn upp til að reyna að verja sig en annars snertum við þau ekki,“ sagði Mary. Náðist atvikið á öryggismyndavél sem hún segir sanna sakleysi þeirra.
Voru hjónin kvödd á lögreglustöð, fingraför tekin af þeim sem og vegabréfin. Nú í mars voru þau svo fundin sek og hefur verið sagt að líklega séu þau á leið í fangelsi.
Hjónin hafa eytt sínum síðustu aurum til að reyna að verja sig og komast frá Tælandi og heim til Bretlands en þau eru föst. Hafa þau meðal annars beðið um hjálp frá breska utanríkisráðuneytinu.
„Allt sem við viljum er að komast heim en við erum föst hérna, við erum fangar og enginn virðist geta hjálpað okkur,“ sagði frú Byrne. „Þetta er eins og lifandi helvíti því það er öllum ljóst að við erum fórnarlömbin í þessu atviki en einhvern veginn enduðum við fyrir rétti. Þetta er mjög óhugnanlegt.“