Lögregla er á vettvangi við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi þar sem mannlaus deilibíll fannst hálfur ofan í drullupytti.
Lögreglu barst tilkynning frá borgara klukkan 11:44 í dag um bíl sem væri utan vegar og hálfur ofan í Bakkatjörn á Seltjarnarnesi. Lögreglumenn eru nú á vettvangi.
„Lögreglumenn eru á staðnum núna. Deilibíll frá Hopp er fastur í drullupytti alveg við tjörnina. Bíllinn er mannlaus,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Næsta verkefni lögreglu er væntanlega að fá aðstoð til að draga bílinn þarna upp og rannsaka svo af hverju hann er þarna,“ segir hann.
Eins og sést á ljósmynd sem vegfarandi tók er bíllinn á viðkvæmu svæði þar sem er mikið fuglalíf.
Ekki náðist í þjónustustjóra Hopp fyrir vinnslu þessarar fréttar.