Samkvæmt heimildum DV fannst karlmaður þungt haldinn á leikvelli í Gufunesi í Grafarvogi í morgun og lést skömmu síðar á sjúkrahúsi. Er málið rannsakað sem mögulegt manndrápsmál. Maðurinn er á sjötugsaldri.
Miklir áverkar voru á manninum og samkvæmt heimildum DV eru árásarmennirnir grunaðir um að hafa beitt hann miklum barsmíðum og traðkað á honum. DV hefur hvað sem því líður ekki upplýsingar um dánarorsök.
Um handrukkun var að ræða og neitaði maðurinn að verða við kröfum árásarmanna um að millifæra mikið fé á tiltekinn aðila, svo nemur einhverjum milljónum króna.
Maðurinn er frá Suðurlandi, DV hefur ekki staðfestar upplýsingar um nákvæmlega hvar á Suðurlandi hann bjó, en það gefur ákveðnar vísbendingar að lögregluaðgerðir hafa staðið yfir vegna rannsóknar málsins í Þorlákshöfn í dag.
Lögreglan á Suðurlandi sendi frá sér tilkynningu um málið fyrr í dag og kom þar meðal annars fram að fimm eru í haldi lögreglu vegna rannsóknarinnar:
„Lögreglan á Suðurlandi hefur til rannsóknar andlát karlmanns sem lést snemma í morgun. Áverkar á hinum látna benda til að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Rannsókn málsins er á frumstigum og er málið rannsakað sem manndráp. Fimm aðilar eru í haldi lögreglu í tengslum við rannsóknina.
Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins og hefur notið aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vesturlandi auk embættis héraðssaksóknara og sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Vegna rannsóknarhagsmuna er að svo stöddu ekki unnt að veita nánari upplýsingar um málið.“
Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við DV fyrr í dag að frekari upplýsinga frá lögreglu um málið væri að vænta á morgun.
Fréttinni hefur verið breytt. Nokkur atriði í henni voru ekki rétt í gær og er beðist velvirðingar á því.