Fyrir helgi var í Lögbirtingablaðinu birt stefna sveitarfélagsins Skagafjarðar á hendur ýmsum félögum. Er markmiðið að 100 prósent eignarréttur sveitarfélagsins yfir fasteigninni Skólagötu á Hofsósi verði staðfestur. Krefst sveitarfélagið þess að öll réttindi félaganna sem snúa að eigninni verði felld niður. Kemur fram í stefnunni að flest félaganna séu ekki skráð hjá hinu opinbera og að ekki séu skráðir neinir stjórnarmenn. Í stefnunni eru félögin flest sögð vera „týnd“ og virðist sú fullyrðing eiga við rök að styðjast.
Skólagata er samkvæmt Fasteignaskrá 884,8 fermetrar að stærð. Brunabótamat eignarinnar er 487.050.000 króna en fasteignamat 113.300.000 króna.
Samkvæmt stefnunni var húsið upphaflega félagsheimili og er í daglegu tali kallað Höfðaborg en það nafn er skráð undir lýsingu á eigninni í Fasteignaskrá.
Málið er höfðað á hendur Kvenfélaginu Öldunni, Söngfélaginu Hörpu, Ungmennafélaginu Höfðstrendingi, Ársæl verkalýðsfélagi og Ungmennafélaginu Geisla, eða hverjum þeim öðrum sem telji til eignarréttar yfir húsinu.
Sveitarfélagið krefst viðurkenningar á 100 prósent eignarrétti þess yfir eigninni og að öll réttindi félaganna verði felld niður og afmáð úr þinglýsingarbókum.
Fram kemur að sveitarfélagið sé einn af þinglýstum eigendum hússins og að umrædd félög séu samkvæmt þinglýsingargögnum sögð vera handhafar eignarréttinda í fasteigninni eða hver sá sem telji til þeirra réttinda.
Í stefnunni er saga málsins rakin. Samkvæmt grunnleigusamningi dagsettum 30. janúar 1975 seldi þáverandi Hofsóshreppur í Skagafirði, lóð á leigu undir Félagsheimilið Höfðaborg Hofsósi. Eigendur eru þar upptaldir Hofsóshreppur, Hofshreppur, Verkalýðsfélagið Ársæll, Kvenfélagið Aldan, Ungmennafélagið Höfðstrendingur, Ungmennafélagið Geisli, Fellshreppur og Söngfélagið Harpa. Frá því leigusamningurinn var gerður hafa Hofsóshreppur, Hofshreppur og Fellshreppur sameinast og orðið að sveitarfélaginu Skagafirði ásamt fleiri hreppum. Í skjalinu koma ekki fram eignarhlutföll hvers leigutaka að lóðinni.
Í stefnu Skagafjarðar er lögð áhersla á að frá því að sveitarfélagið varð til árið 1998 með sameiningu sveitarfélaganna í firðinum hafi það eitt staðið straum af rekstrar- og viðhaldskostnaði af fasteigninni og hafi aðrir eigendur ekki tekið þátt í þeim kostnaði. Samkvæmt fasteignayfirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar séu eignarhlutföll eigenda sögð 0 prósent og sé eignarheimildin framangreindur grunnleigusamningur frá 30. janúar 1975.
Í stefnunni kemur fram að ekkert sé vitað um afdrif þinglýstra eigenda, annarra en Skagafjarðar og Verkalýðsfélagsins Ársæls, en það félag hafi verið afskráð þann 1. mars 2021 án þess að hlut félagsins í fasteigninni hafi verið ráðstafað annað. Ekki sé vitað um afdrif annarra eigenda þ.e. Kvenfélagsins Öldunnar, Söngfélagsins Hörpu, Ungmennafélagsins Höfðstrendings og Ungmennafélagsins Geisla. Félögin séu ekki með kennitölu og séu hvorki skráð í Þjóðskrá eða hlutafélagaskrá. Það séu því rúm 50 ár síðan grunnleigusamningurinn var gefinn út og ljóst að frá sameiningu sveitarfélaganna í Skagafirði, fyrir 27 árum, hafi enginn þessara þinglýstu eigenda nýtt réttindi sín að fasteigninni.
Þegar leitað er að umræddum félögum í fyrirtækjaskrá Skattsins kemur fram að skráð er félag sem heitir Kvenfélagið Aldan en skráð stofnár er 1981, 6 árum eftir að leigusamningurinn var gerður. Félagið er enn fremur skráð til heimilis í Eyjafirði og því líklega ekki um sama félag að ræða. Annað kvenfélag með sama nafni er skráð á Húsavík en það var stofnað 2009. Einnig finnast í fyrirtækjaskrá tvö félög sem bera heitið Ungmennafélagið Geisli, annað í Aðaldal, í póstnúmeri Húsavíkur, en hitt í Súðavík. Skráður stofndagur beggja er eftir að samningurinn um eignina á Hofsósi var gerður og því líklega heldur ekki um að ræða félagið sem stefnan beinist að.
Um Söngfélagið Hörpu segir á vefnum Glatkistan að það hafi verið starfandi á Hofsósi á árunum 1969-1983.
Þegar leitað er að Kvenfélaginu Öldunni á Hofsósi í netheimum kemur fyrst upp minningargrein úr Morgunblaðinu frá 1993 um fyrrum formann félagsins, Pálu Pálsdóttur. Þar kemur fram að félagið hafi verið stofnað 1950. Starfsemi þess virðist hins vegar hafa lagst niður undir lok síðustu aldar. Ársskýrsla félagsins frá 1992 finnst einnig en engin nýrri merki um starfsemi þess finnast í fljótu bragði.
Ungmennafélagið Höfðstrendingur var samkvæmt vef Ungmennasambands Skagafjarðar stofnað 1917 og var skráð sem aðili að Ungmennasambandinu en er það, samkvæmt nýjustu handbók sambandsins, ekki lengur. Sama á við um skráningu Ungmennafélagsins Geisla. Engin merki um nýlega starfsemi þessara ungmennafélaga finnast við stutta leit í netheimum.
Það virðist því sem starfsemi allra þeirra félaga sem nefnd eru í stefnunni, fyrir utan verkalýðsfélagið Ársæl, hafi lagst af og legið niðri í töluverðan tíma án þess að félögin hafi nokkurn tímann verið afskráð með formlegum hætti.
Í stefnu Skagafjarðar segir að skýrt sé að réttindi þessara „týndu félaga“ til umræddrar fasteignar séu fallin niður en til að fá úr því skorið sé stefnan nauðsynleg.
Vísar Skagafjörður til þess að umrædd félög fyrir utan Ársæl verkalýðsfélag, hafi í raun aldrei verið stofnuð og að því hafi þau í raun aldrei verið bær sem lögformlegur eigandi umræddra eignarréttinda. Ársæll verkalýðsfélag hafi verið afskráð 1. mars 2021 en hlut félagsins í fasteigninni ekki ráðstafað annað. Það sé því ljóst að réttindi félagsins yfir fasteigninni séu fallin niður og hafi enginn gert tilkall til réttindanna.
Lögð er enn fremur áhersla á að ekki liggi neitt fyrir um hvert sé eignarhald umræddra félaga. Engar upplýsingar sé að finna um fyrirsvarsmenn, eigendur eða stjórnarmenn þessara félaga. Þá sé engar upplýsingar um að þeim hafi verið slitið. Engir aðrir aðilar en sveitarfélagið hafi gert tilkall til fasteignarinnar. Vill sveitarfélagið einnig meina að það hafi öðlast eignarrétt yfir eigninni á grundvelli þess að hafa alfarið séð um hana síðan 1998.
Forsvarsmönnum umræddra félaga er stefnt fyrir Héraðsdóms Norðurlands vestra í næsta mánuði til að leggja fram gögn í málinu og halda fram rétti sínum. Miðað við að eitt félaganna hefur verið formlega lagt niður og að engin starfsemi virðist hafa verið í hinum síðan á síðustu öld virðist ólíklegt að nokkur muni mæta fyrir hönd félaganna.