fbpx
Þriðjudagur 11.mars 2025
Fréttir

Síðustu dagar Gene Hackman

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. mars 2025 21:30

Hjónin árið 1986. Mynd/Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margt bendir til þess að bandaríski stórleikarinn Gene Hackman hafi verið ómeðvitaður um að eiginkona hans, Betsy Arakawa, væri látin í húsinu sem þau deildu saman. Hjónin fundust látin á heimili sínu í Santa Fe í Nýju-Mexíkó þann 26. febrúar síðastliðinn. Hackman var 95 ára en Arakawa 65 ára.

Á föstudag var greint frá dánarorsök hjónanna en Betsy er talin hafa látist þann 11. febrúar af völdum hantaveirunnar en Hackman er talinn hafa látist viku síðar, eða 18. febrúar, af völdum hjartaáfalls. Þá kom í ljós við krufningu að hann var langt leiddur af Alzheimers-sjúkdómnum.

Hjónin hurfu nær algjörlega úr sviðsljósinu um það leyti sem Hackman sagði skilið við Hollywood upp úr aldamótum. Þau héldu sig mikið til út af fyrir sig og virðist Betsy hafa séð ein um umönnun hans síðustu ár. Hann var orðinn heilsuveill; krufning leiddi í ljós að hjarta hans var illa farið og hafði hann fengið fleiri en eitt hjartaáfall.

Los Angeles Times segir frá því að lögregla hafi kortlagt ferðir Betsy til að fá betri mynd á síðustu daga hjónanna. Hún sást sinna erindum í Santa Fe þann 11. febrúar þar sem hún fór meðal annars í apótek með hlífðargrímu fyrir andlitinu. Þá skrifaði hún nuddaranum sínum tölvupóst en eftir það heyrðist ekkert frá henni.

Telja yfirvöld að hún hafi látist 11. febrúar af völdum fylgikvilla hantaveirunnar, en um er að ræða alvarlegan sjúkdóm sem getur borist í fólk með úrgangi eða munnvatni nagdýra. Einkenni líkjast oft einkennum svæsinnar flensu og getur veiran valdið alvarlegum öndunarfæratruflunum. Allt að helmingur þeirra sem smitast af veirunni deyr sem sýnir hversu alvarlegur sjúkdómurinn er.

Ummerki um meindýr höfðu fundist á heimili hjónanna og er talið líklegt að Betsy hafi smitast þar. Hackman reyndist ekki vera smitaður af veirunni.

Réttarlæknirinn Heather Jarrell segir að flest bendi til þess að Hackman hafi verið lifandi í töluvert marga daga eftir að eiginkona hans lést. Þar sem hann var langt leiddur af Alzheimers-sjúkdómnum er alls óvíst að hann hafi verið meðvitaður um örlög eiginkonu sinnar. Þá hefur rannsókn leitt í ljós að hann hafði ekki samband við neinn eftir að hún lést.

Þá greinir CNN frá því að enginn matur hafi fundist í maga leikarans sem bendir til þess að hann hafi borðað lítið sem ekkert í þó nokkurn tíma. Hackman er talinn hafa látist sem fyrr segir þann 18. febrúar úr hjartasjúkdómi.

Vinir hjónanna segja við bandaríska fjölmiðla að þau hafi viljað vera út af fyrir sig, en þau hafi augljóslega átt gott og hamingjuríkt hjónaband. „Ég hef sennilega aldrei séð hjón sem njóta þess jafn mikið að vera í návist hvors annars,“ segir Daniel Lenihan í viðtali við CNN. Þau virðast hafa einangrast töluvert á síðustu árum, sérstaklega eftir að COVID-faraldurinn reið yfir og líklega eftir að heilsu Hackman tók að hraka samhliða Alzheimers-sjúkdómnum.

Í umfjöllun New York Times kemur fram að Betsy hafi hugsað vel um eiginmann sinn og segir Tom Allin, vinur Hackmans til fjölmargra ára, að á 90 ára afmæli hans árið 2020 hafi hún þynnt rauðvínið hans með vatni. Segir Tom að Hackman hafi orðið tíðrætt um að án hennar væri hann sennilega löngu dáinn, svo vel hafi hún hugsað um hann.

En nokkur ár eru liðin síðan vinir og aðstandendur hjónanna fóru að taka eftir því að Hackman var ekki eins og áður. Bendir Tom á það í umfjölluninni að Hackman hafi lagt það í vana sinn að elda kvöldmat fyrir eiginkonu sína á afmælisdegi hennar. Á afmæli hennar fyrir tveimur árum, þegar hann var 93 ára, er hann sagður hafa gleymt þessari hefð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

„Kvittana-veggur“ Musk átti að dásama afrek hans – Nú hverfa kvittanirnar ein af annarri

„Kvittana-veggur“ Musk átti að dásama afrek hans – Nú hverfa kvittanirnar ein af annarri
Fréttir
Í gær

Vörður veitir fjárhagslegar bætur fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum

Vörður veitir fjárhagslegar bætur fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jörfi opnar nýja fagverslun í Grænum iðngörðum á Akranesi

Jörfi opnar nýja fagverslun í Grænum iðngörðum á Akranesi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hvetur flugfarþega til að gera ekki sömu mistök og hún gerði

Hvetur flugfarþega til að gera ekki sömu mistök og hún gerði