fbpx
Mánudagur 21.apríl 2025
Fréttir

Íbúar fengið nóg og kalla eftir aðgerðum: „Alveg sama hvað þú gerir, alltaf lendirðu á vegg“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. mars 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúar við Hæðargarð í nágrenni Bústaðavegar í Reykjavík hafa fengið nóg af aðgerðaleysi borgaryfirvalda. Þeir hafa ítrekað kallað eftir því að gripið verði til aðgerða til að lækka umferðarhraða í götunni en án árangurs.

Dóra Magnúsdóttir, íbúi við Hæðargarð, skrifar grein á Vísi og leggja fjölmargir nágrannar hennar nafn sitt við greinina. Dóra segir stöðuna minna á hugtak Frans Kafka um „kafkaískt skrifræði“ og segir:

„Alveg sama hvað þú gerir, hvernig þú gerir það og hve oft þú reynir – alltaf lendirðu á vegg. Sá eða sú sem lendir í tannhjóli skrifræðisins er fastur í óskiljanlegu og ruglingslegu ferli og er fullkomlega máttlaus gagnvart kerfinu. Dramatískt? Heldur betur! En þetta er upplifun foreldra og annarra íbúa í Hæðargarði, og reyndar víðar í póstnúmeri 108, sem hafa reynt með ýmsum ráðum í mörg ár að fá borgina til að draga úr umferðarhraða í götunni. Upplifun íbúa er sú að það sé undarlegt að stundum hefur verið hlustað á íbúa í tilteknum götum í Reykjavík og farið í framkvæmdir til að draga úr hraða til að mæta óskum þeirra. Einfaldlega vegna þess að íbúar kölluðu eftir því. Bara ekki í Hæðargarði.”

Enginn árangur af bröltinu

Dóra rifjar upp að skrifaðar hafi verið greinar, foreldrafélög Breiðagerðisskóla og Jörfa hafi sent frá sér ályktun og mótmælt glannaakstri, bent hafi verið á vandann í íbúakosningu um Betri Reykjavík og málefni um hraðakstur í Hæðargarði og öðrum götum í hverfi 108 hafi ítrekað komið á borð íbúaráðs hverfisins.

„Enginn árangur af þessu brölti foreldra og annarra íbúa, foreldraráða, íbúaráðs og íbúasamtaka til þess að lækka umferðarhraða við íbúðagötu þar sem eru þrír skólar. Barnaskólinn Breiðagerðisskóli, leikskólinn Jörfi og Réttarholtsskóli. Sá síðastnefndi er annar fjölmennasti unglingaskóli landsins við enda götunnar, og veldur mikilli gangandi og hjólandi umferð úr nærliggjandi hverfum. Og hér erum við að tala um börn og ungmenni! Að auki er í Hæðargarði töluvert um gangandi eldri borgara, sem fara sumir hægt yfir, enda eru þar íbúðir fyrir aldraða og öflugt félagsstarf,“ segir hún.

Boðið upp á hraðakstur

Hámarkshraði í götunni er 30 kílómetrar á klukkustund og segir Dóra að einhverjir gætu spurt sig hvers vegna íbúar eru að tuða.

„Það er út af fyrir sig rétt, nema bara gatan er breið og hraðahindranir í götunni það lágar að þær stöðva ekki of hraðan akstur. Auk þess benda mælingar til að gegnumakstur hafi aukist verulega þegar umferð er hæg á Bústaðavegi, einmitt á þeim tíma sem börn og ungmenni ganga eða hjóla í skólann,“ segir Dóra og bætir við að samkvæmt mælingum lögreglu aki um helmingur ökumanna of hratt í gegnum Hæðargarð. Margir íbúa hafi orðið vitni að framúrakstri og ein mæling hafi til dæmis sýnt að bílum hafi verið ekið um götuna á 71, 76 og 80 kílómetra hraða.

„Þetta var aðeins ein stök og staðfest mæling sem gefur til kynna að hraðakstur gerist reglulega þó hann sé ekki algengur. Enda þarf bara einn bíl til að verða barni að bana.“

Með hjartað í buxunum

Dóra segir að foreldri við götuna, sem leggur nafn sitt við greinina, hafi stigið inn með afgerandi hætti í málið, meðal annars á fundum með íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis.

„Foreldri sem sendir tvö börn yfir götuna á hverjum morgni með hjartað í buxunum í þau skipti sem þau fara án fylgdar. Augljóslega fylgja margir foreldrar börnum sínum til skóla vegna þessarar stöðu, það er næstum óþarfi að taka það fram. Rökin sem hann fékk fyrir aðgerðarleysi borgarinnar minna enn og aftur á Kafkaíska martröð. Bent hefur verið á að engin slys hafi átt sér stað sl. 10 ár! Þrátt fyrir að hönnun götunnar gefi færi á ofsaakstri í íbúagötu (80 km hraða á klst) og helmingur bíla aki of hratt þá hefur ekki orðið alvarlegt slys. Þetta er eins og að segja við einstakling sem reykir tvo pakka á dag: „Alveg óþarfi að hætta að reykja, þú ert ekki enn kominn með krabbamein. Við skulum skoða málið þegar það er staðfest að þú sért með krabbamein.”

Dóra segir að málið hafi virst ná eyrum fyrrverandi borgarstjóra í haust og var það tekið aftur upp í íbúaráði og sent áfram til umhverfis- og skipulagsráðs. Þaðan var málinu vísað áfram í kerfinu til skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnuðar þar sem það virðist hafa dáið.

„í götunni, eins og foreldrar, foreldrafélög, íbúaráð og aðrir íbúar hafa kallað ákaft eftir árum saman og ætti ekki að vera flókið, er málið komið á byrjunarreit eins og hjá óheppnum spilara í slönguspili,“ segir Dóra en það síðasta sem fréttist af málinu var loðin bókun í umhverfis- og skipulagsráði í febrúarmánuði sem tekur ekki á vandanum um of hraðan og aukinn akstur.

„Lagt er til að vinna heildstæða samantekt á leiðum til að bæta aðgengi, vellíðan og umferðaröryggi gangandi og hjólandi barna á leið til skóla og tómstundaiðkunar með fordæmum erlendis frá… “.

Segir Dóra – og aðrir íbúar í hverfinu – að kjarni málsins sé sá að ekki eigi að þurfa að koma til alvarlegs slyss til að ráðist verði í aðgerðir varðandi öryggi gangandi vegfaranda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kærastinn að sökkva ofan í hyldýpi hægri samsæriskenninga – Spyr hvað sé til ráða?

Kærastinn að sökkva ofan í hyldýpi hægri samsæriskenninga – Spyr hvað sé til ráða?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Strútur réðst á Boris Johnson – „Of fyndið til þess að deila ekki“

Strútur réðst á Boris Johnson – „Of fyndið til þess að deila ekki“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórður segir mjög mikilvægt að íslenska þjóðin sigri áróðursstríð útgerðarinnar – „Nú þarf að anda í kviðinn“

Þórður segir mjög mikilvægt að íslenska þjóðin sigri áróðursstríð útgerðarinnar – „Nú þarf að anda í kviðinn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kristján Loftsson harðorður – „Alþingi ræður engu í dag hér“

Kristján Loftsson harðorður – „Alþingi ræður engu í dag hér“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kona föst inni á salerni

Kona föst inni á salerni
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Segir bæjarstjórn Seltjarnarnes verða að horfast í augu við raunveruleikann – Uppsafnaður halli 3 milljarðar og þjónusta í molum

Segir bæjarstjórn Seltjarnarnes verða að horfast í augu við raunveruleikann – Uppsafnaður halli 3 milljarðar og þjónusta í molum
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Dómur fallinn yfir Hauki Ægi – Ákærður fyrir manndrápstilraun gegn sýrlenskum skutlara sem braut gegn dóttur kærustu hans

Dómur fallinn yfir Hauki Ægi – Ákærður fyrir manndrápstilraun gegn sýrlenskum skutlara sem braut gegn dóttur kærustu hans