Guðbrandur skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir meðal annars raunum 96 ára ökumanns sem setti sig í samband við hann fyrir skemmstu.
Þá vísar hann í grein eftir hagfræðinginn Pétur J. Eiríksson sem birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar síðastliðinn þar sem Pétur varpaði ljósi á hvernig þessum málum er háttað í Svíþjóð.
Benti hann til dæmis á að sænskur eftirlaunaþegi hafi endurnýjað ökuréttindi sín frá þeim tíma að hann komst á eftirlaun og til 90 ára aldurs alls þrisvar sinnum á meðan íslenskur jafnaldri hans hefur þurft að endurnýja sín ökuréttindi fimmtán sinnum á sama tímabili.
Í Svíþjóð sé það einnig stjórnvaldsins og heilbrigðiskerfisins að sanna að einstaklingur sé ekki lengur hæfur til að stjórna ökutæki en hér sé það einstaklingsins að sanna að hann sé enn fær um að geta ekið. „Er ekki eitthvað mikið að hér?,“ spyr Guðbrandur sem lýsir svo reynslu hins aldna ökumanns sem hafði samband við hann.
„Fyrir skömmu hafði samband við mig 96 ára gamall maður sem hafði fengið þann úrskurð hjá heilsugæslulækni að hann þyrfti nánari skoðunar við áður en ökuskírteini hans yrði endurútgefið. Hann fór með vottorðið til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem úrskurðaði að hann þyrfti að þreyta próf í aksturshæfni hjá Frumherja hf. en það fyrirtæki hefur einkarétt á framkvæmd ökuprófa hér á landi. Fyrrnefndur einstaklingur leitaði til undirritaðs og falaðist eftir aðstoð hans við undirbúning fyrir prófið. Við hófum okkar samstarf með því að við fórum saman í ökuferð á kennslubifreið minni en strax í upphafi hennar kom í ljós að viðkomandi einstaklingur hafði mjög mikla og góða hæfni sem ökumaður og þótt á ökutímann liði kom ekkert það fram sem benti til annars en þessi fyrsta tilfinning undirritaðs væri rétt. Því var pantaður tími fyrir hæfniprófið sem fór fram 18. febrúar síðastliðinn.“
Guðbrandur segir síðan að eins og við var búist hafi prófið gengið vel og átti hann samtal við prófdómarann í kjölfarið.
„Voru þeir sammála um að margir 17 til 25 ára ökumenn mættu vera ánægðir með að akstur þeirra væri af sömu gæðum og akstur þessa 96 ára gamla próftaka og gott væri að ökumenn tækju hann sér til fyrirmyndar. Viðkomandi býr einn í eigin íbúð og sér algerlega um sig sjálfur og þarf meðal annars að sjá um aðdrætti fyrir heimili sitt en hann á ekki gott með gang sem stendur vegna ökklabrots. Rétt er einnig að geta þess hér að embætti sýslumanns sýndi honum þá sérstöku manngæsku að neita honum um bráðabirgðaakstursheimild þannig að hann kæmist út í búð að sækja sér mat.“
Guðbrandur segir að þessi ákvörðun heilbrigðiskerfisins og sýslumanns hafi kostað þennan einstakling tugi þúsunda króna að þessu sinni, en gera megi ráð fyrir að hann þurfi að endurtaka leikinn að ári liðnu og síðan koll af kolli.
„Að mati undirritaðs er hér um að ræða óvenju ósvífnar árásir samfélagsins á einstaklinga sem gera sitt ýtrasta til að standa sig sem allra best og íþyngja hvorki embættinu né samfélaginu að óþörfu. Það má svo koma fram að undirrituðum er kunnugt um að þetta er langt í frá eina tilvikið þar sem misrétti viðgengst varðandi þennan málaflokk.“
Guðbrandur veltir fyrir sér hvort ekki sé tímabært að hið opinbera fari að tileinka sér mildari og manneskjulegri aðferðir til að hanna hæfi og getu eldri einstaklinga til aksturs og leiti í því sambandi til reynslu grannþjóða okkar.
„Því eru hér í lokin ítrekaðar óskir sem settar voru fram í grein undirritaðs um sama efni frá 21. janúar 2025 þar sem skorað var á nýkjörna alþingismenn og ráðherra samgöngu- og dómsmála að beita sér fyrir lagfæringum á þessum vanvirðandi aðferðum sem eldri borgarar eru beittir hér á landi við endurnýjun ökuréttinda sinna.“