Eliza Reid um ógnina frá Trump – „Sýnum ofbeldisseggjum að við erum ekki hrædd“
Eliza Reid, fyrrverandi forsetafrú, segir tíma til kominn fyrir Íslendinga að „lyfta olnbogum“ og sýna ofbeldisseggjum að við séum ekki hrædd. Sem Kanadamaður finni hún fyrir áður óþekktri þjóðernisvakningar í ljósi ógninni frá Bandaríkjunum.
„Ég hef verið stoltur Íslendingur í áratugi. Ég fagna bolludegi og sumardeginum fyrsta. Ég get sungið Ó, guð vors lands. En um leið hef ég alltaf verið stoltur Kanadamaður,“ segir Eliza í aðsendri grein á Vísi í morgun.
Tilefnið er ógnin frá Bandaríkjunum. Það er orð Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um að Kanada sé „51. fylkið“. En fyrir utan það hefur hann meðal annars ógnað Grænlendingum og Panamamönnum.
„Í viðtölum um allan heim hef ég oft verið spurð um líkindin á milli Íslands og Kanada, og vissulega er margt sem tengir þessar tvær þjóðir saman. Við höfum nánast sama fjölda íbúa miðað við stærð landa okkar. Við berum virðingu fyrir náttúrunni og vitum að við þurfum að vinna að því að vernda hana og verjast hættum hennar, hvort sem það eru gróðureldar í Kanada eða eldgos hér á Íslandi. Við höfum sterk og djúp tengsl við hafið sem umlykur okkur,“ segir Elíza.
Mikilvægast af öllu sé hins vegar að sem fullvalda þjóðir deilum við svipuðum gildum, séum sterkir stuðningsmenn og virkir þátttakendur í marghliða samstarfi og alþjóðastofnunum. Stöndum vörðum um tjáningarfrelsið, lýðræðisleg gildi og réttlæti fyrir alla.
„Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum sem þjóð hér á Íslandi hættum við (oftast) að rífast og stöndum saman öll sem eitt. Og nú finn ég fyrir samstöðu Kanadamanna um allan heim þegar við stöndum frammi fyrir ógn sem beinist að sjálfri tilvist okkar. Þetta hefur leitt til þjóðernisvakningar sem ég hef ekki séð áður á minni lífstíð,“ segir Eliza.
Eliza segir að þessa dagana leggi Kanadamenn ágreining sinn til hliðar en þess í stað einbeiti sér að aðgerðum sem sendi stór skilaboð suður yfir landamærin. Til dæmis að hætta við ferðalög til Bandaríkjanna, segja upp áskriftum að bandarískum streymisveitum og taka bandarískt áfengi úr búðarhillum. Vanalega séu Kanadamenn látlausir og kurteisir en nú bæla þeir þetta niður og púa á þjóðsöng Bandaríkjanna á íþróttaleikjum. Einnig styðja þeir innlenda framleiðslu og hafa tekið upp hrífandi þjóðrækna söngva.
„Og hér erum við á okkar litla, friðsæla Íslandi. En við erum ekki friðsælasta þjóð heims vegna þess að við elskum frið meira en aðrar þjóðir. Allt skynsamt fólk vill lifa í friðsælum heimi. Við búum hins vegar í heimi sem breytist hratt, sem byggist sífellt meira á viðskiptalegum hagsmunum, heimi þar sem margir virðast trúa því að ef einn græðir þurfi annar að tapa. Þar sem þú ert annaðhvort með okkur eða á móti okkur,“ segir Eliza.
Eliza segir að nú sé kominn tími til að við látum í okkur heyra og kalla eftir mannréttindum á alþjóðavettvangi. Hver og einn þurfi að hugsa hvernig hægt sé að leggja sitt af mörkum.
„Viljum við efla viðskipti og samstarf við óáreiðanleg, verndarsinnuð stjórnvöld? Viljum við líta undan þegar nánustu og tryggustu bandamenn okkar í NATO eru lagðir í einelti? Viljum við bara horfa á, yppta öxlum og bíða þar til röðin kemur að okkur?“ spyr hún.
Vísar hún í þáttinn Saturday Night Live þar sem kanadíski grínistinn Mike Myers var í bol með áletruninni „Canada is not for sale“ og sagði „Elbows up“.
„Hver einasti Kanadamaður kannast við þetta orðatiltæki úr íshokkí (við eigum mörg slík í Kanada!): Þegar þú ert á ísnum og andstæðingurinn kemur aðvífandi aftan frá lyftu þá olnbogunum – og láttu hann finna fyrir því,“ segir Eliza að lokum. „Nú er kominn tími til að við á Íslandi og annars staðar lyftum olnbogunum og sýnum ofbeldisseggjum að við erum ekki hrædd. Nú er kominn tími til að við sýnum að saman erum við afl sem ekki er hægt að hundsa.“