Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins, gerir mikla launahækkun Heiðu Bjargar Hilmisdóttur að umfjöllunarefni í færslu á samfélagsmiðlum. Spyr hann hvort að þær séu í anda þess sem flokkur sem kenni sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð boðar.
„Er þetta ekki „helvíti“ vel í lagt að vera með heildarlaun sem nema tæpum fjórum milljónum á mánuði,“ segir Vilhjálmur í færslunni.
Vísar hann til fréttar Morgunblaðsins um 170 prósenta hækkun á launum Heiðu fyrir formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Á sama tíma hafa almenn stjórnarlaun hækkað um 60 prósent. Eins og komið hefur fram í fréttum eru laun Heiðu sem borgarstjóri 3,8 milljónir á mánuði.
Bent er á að þetta er þreföldun á launum frá árinu 2023. Þau hafi farið úr 285.087 krónum í 868.671 krónur á þessu tveggja ára tímabili. Inni í þessari tölu eru 105.750 krónur vegna aksturs. Heiða Björg hefur verið formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því síðla árs 2022.
Breytingin var samþykkt á síðasta ári en vinnuskyldan var ekki aukin nema lítillega. Það er að einum stuttum fjarfundi í mánuði var bætt við.
Þá bendir Vilhjálmur á að starfið feli nú ekki í sér mikla viðveru. „Ég skil bara ekki hvernig sé hægt að vera með tæpa milljón fyrir formennsku þar sem fundað er rétt rúmlega einu sinni í mánuði og væntanlega eru allir þessir fundir á hefðbundnum dagvinnutíma,“ segir Vilhjálmur. „Eitt er víst að þessi hækkun hjá formanni SÍS er ekki í nokkrum takti við það sem annað launafólk hefur fengið í launahækkun á umræddu tímabili.“
Veltir Vilhjálmur því fyrir sér hvort að þetta samrýmist gildum Samfylkingarinnar, sem Heiða Björg situr fyrir sem borgarstjóri.
„Eru tæpar fjórar milljónir á mánuði í laun og 170% hækkun fyrir formennsku hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í anda þess sem flokkur borgarstjóra kennir sig við sem er félagshyggja, réttlæti og jöfnuður. Spyr sjá sem ekki veit!“ segir hann að lokum.