fbpx
Mánudagur 10.mars 2025
Fréttir

Móðir hefur ekki fengið að sjá börnin sín í þrjá mánuði þrátt fyrir úrskurð um að þau eigi að búa hjá henni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 7. mars 2025 12:30

Páll Ágúst Ólafsson lögmaður

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona frá Brasilíu, sem búið hefur á Íslandi í níu ár, gifst íslenskum manni og eignast með honum tvö börn, greindi frá því í Facebook-færslu í gær að hún hefði ekki fengið að sjá börnin sín í þrjá mánuði, þrátt fyrir úrskurð sýslumanns þess efnis að börnin eigi að búa hjá henni.

Hjónin eru skilin að skiptum og hafa bæði sótt um skilnað. Konan segist í færslunni hafa komið að læstum dyrum á sameiginlegu heimili þeirra úti á landi síðasta sumar, en eiginmaðurinn hafði þá skipt um skrár að útidyrum. Hún hafi þá farið með börnin til Reykjavíkur og leitað til Kvennaathvarfsins. Hún flutti síðan í öruggt húsnæði með börnin og þau hófu skólagöngu í Reykjavík.

Sýslumaður úrskurðaði til bráðabirgða að börnin eigi að vera hjá móðurinni en faðirinn njóti umgengnisréttar, hann megi hafa börnin tvær helgar í mánuði, frá föstudegi til sunnudags. Samkvæmt frásögn konunnar sótti faðirinn börnin síðast til hennar föstudaginn 6. desember og síðan hefur hún ekki séð börnin. Þau búa núna á heimili föðurins úti á landi og sækja skóla þar.

Konan skrifaði í gær: „Í dag eru þrír mánuði síðan ég fékk að sjá börnin mín þó að ég sé með skjal sem segir að þau eigi að búa hjá mér. Ég trúi því ekki að svona sé látið viðgangast í landi eins og Íslandi.“

Villta vestrið

Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður konunnar, segir að miklir gallar á réttarkerfi okkar kristallist í þessu máli. „Við lögmenn köllum oft þetta tímabil villta vestrið. Þegar fólk brýtur svona gegn úrskurðum um umgengni þá gilda reglur villta vestursins, semsagt engar reglur.“

Hann bendir á að sýslumaður hafi kveðið upp sinn bráðabirgðaúrskurð í málinu eftir ítarlega gagnaöflun, meðal annars frá barnavernd. Faðir barnanna hafði fundið konunni allt til forráttu og hvað eftir annað tilkynnt hana til barnaverndar þá mánuði sem þau bjuggu hjá henni í Reykjavík. Barnavernd kynnti sér aðstæður móðurinnar og barnanna og sá ekki ástæðu til að aðhafast. Á þeim gögnum, meðal annars, byggir sýslumaður þegar hann ákveður að börnin eigi að búa áfram hjá móðurinni en faðirinn að njóta umgengnisréttar.

Vandinn er sá, segir Páll, að þegar brotið er gegn svona úrskurðum þá séu þau úrræði sem hægt er að grípa til allt of hægvirk. „Þarna er verið að tálma umgengni, hann tekur sér það vald að afhenda ekki börnin og loka á samskipti móðurinnar við þau. Barnavernd og lögregla hafa engin úrræði til að aðhafast. Það eina sem hún getur gert er að setjast upp í bíl, keyra á staðinn og sækja börnin með valdi, með hættu á tilheyrandi handalögmálum.“ Segir Páll augljóst að þetta sé ekki úrræði sem kemur til greina enda gæti það verið mjög skaðlegt fyrir börnin.

„Hún getur krafist aðfarargerðar, það er að börnin verði afhent henni á grundvelli þessa bráðabirgðaúrskurðar, en það ferli tekur marga mánuði. Hún getur krafist þess að hann verði úrskurðaður til að greiða dagsektir vegna umgengistálmana, en það er algjörlega fjarstæðukennt úrræði fyrir hana. Ég hef fyrir hönd konunnar stefnt föðurnum í forsjármáli fyrir héraðsdóm til að skera úr um hvar lögheimili barnanna á að vera, hvernig forsjá barnanna og umgengni skuli háttað. Ég býst við því að það mál komi fyrir dóm áður en búið verður að bregðast við þessum tálmunarbrotum mannsins.“

Páll bendir á að á meðan foreldri sé tálmað í langan tíma frá börnum sínum hafi hitt foreldrið öll tök á að innræta þeim andúð á tálmaða foreldrinu. „Úrræðaleysið varðandi þessi brot er átakanlegt. Kerfið okkar er meingallað hvað þetta snertir og það bitnar á þeim sem síst skyldi, börnunum,“ segir hann.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Apple bætir við átta nýjum tjáknum – „Þetta er besta tjáknið sem þeir hafa bætt við í mörg ár“

Apple bætir við átta nýjum tjáknum – „Þetta er besta tjáknið sem þeir hafa bætt við í mörg ár“
Fréttir
Í gær

Ferðamenn flúðu lúxushús Skúla Mogensen á hlaupum vegna draugagangs – „We ran for our lives“

Ferðamenn flúðu lúxushús Skúla Mogensen á hlaupum vegna draugagangs – „We ran for our lives“
Fréttir
Í gær

Rubio og Musk hnakkrifust í Hvíta húsinu – Trump reynir að breiða yfir deilurnar

Rubio og Musk hnakkrifust í Hvíta húsinu – Trump reynir að breiða yfir deilurnar
Fréttir
Í gær

Jörfi opnar nýja fagverslun í Grænum iðngörðum á Akranesi

Jörfi opnar nýja fagverslun í Grænum iðngörðum á Akranesi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona með tvíbura í stórhættu á lestarteinum

Kona með tvíbura í stórhættu á lestarteinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sauð upp úr í Breiðholti eftir langvarandi nágrannadeilur

Sauð upp úr í Breiðholti eftir langvarandi nágrannadeilur