Fjórir menn hafa verið ákærðir vegna tveggja stórhættulegra líkamsárása í Reykjanesbæ árið 2023. Einn mannanna var þáttakandi í báðum árásunum.
Af einhverjum ástæðum njóta hinir ákærðu nafnleyndar í ákæru Héraðssaksóknara en þeir eru auðkenndir með bókstöfunum A, B, C og D.
A og B eru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás að kvöldi laugardagsins 18. febrúar 2023. Eru þeir sakaðir um að hafa ráðist á mann á bílastæði fyrir utan verslunina Extra við Hafnargötu í Reykjanesbæ. „…ákærði B sló hann með ítrekuðum höggum í höfuðið og er X reyndi að komast undan ákærða B, sló ákærði A hann í höfuðið. Í framhaldi tók ákærði B utan um X, lyfti honum upp og kastaði honum í jörðina og ákærði A sparkaði í höfuð hans þar sem hann lá á jörðinni, allt með þeim afleiðingum að X hlaut mar á hægri hlið andlits, mar á hægri hendi og mar og hrufl á hægri fæti,“ segir í ákæru.
Þrír menn eru síðan ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás aðfaranótt laugardagsins 29. júlí, á bílastæði við Holtaskóla við Sunnubraut í Reykjanesbæ. Eru þeir auðkenndir sem A, C og D. Réðust þeir að manni sem sat í fremra farþegasæti bíls og slógu hann ítrekað í höfuðið, meðal annars með glerflösku. Einnig slógu þeir hann í hægri handlegg. Hlaut árásarþolinn nefbrot, skurð þvert yfir vinstri augabrún, umtalsverða bólgu frá augnkrók og meðfram nefi vinstra megin, væg eymsli utan á kinnbeini, væg eymsli í neðri framtönnum, margúl á innanverðri neðri vör og verki í olnboga.
Annar brotaþolinn krefst 2 milljóna króna í miskabætur en hinn 1,5 milljóna.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag, fimmtudaginn 6. mars.