Innviðafélag Vestfjarða hefur ályktað um þá ákvörðun Icelandair að hætta flugi til Ísafjarðar á næsta ári. Segir þar að ákvörðun flugfélagsins feli í sér bakslag fyrir samfélagið á Vestfjörðum og skapi óvissu um framtíðarhorfur á svæðinu. Hvetur innviðafélagið stjórnvöld til að huga að staðarvali fyrir nýjan flugvöll á Ísafirði. Tilkynningin er eftirfarandi:
„Icelandair tilkynnti í gær áform sín um að hætta flugi til Ísafjarðarflugvallar árið 2026 þegar nýir flugvellir opna í Grænlandi sem Icelandair getur þjónustað með stærri flugvélum. Þá verður Ísafjarðarflugvöllur eini flugvöllurinn í leiðarkerfi Icelandair sem krefst minnstu flugvélategundar félagsins.
Þessi ákvörðun felur í sér bakslag fyrir samfélagið á Vestfjörðum og skapar óvissu um framtíðarhorfur svæðisins. Ákvörðun Icelandair undirstrikar jafnframt hversu brýnt það er að huga af alvöru að staðsetningu og uppbyggingu flugvallarins á Ísafirði til að auka flugöryggi og aðgengi mismunandi vélakosts.
Árið 2018, sama ár og ákvörðun var tekin af flugmálayfirvöldum Grænlands að byggja nýja flugvelli þar, var svipuð umræða á Íslandi. Þá lagði Guðjón S. Brjánsson þingmaður fram þingsályktunartillögu um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Því miður bar Alþingi ekki gæfa til að afgreiða það þingmál og eftir sitja Vestfirðir án flugvallar sem sinnt getur almennu farþegaflugi.
Öruggar, tíðar og áreiðanlegar flugsamgöngur milli Ísafjarðar og Reykjavíkur eru lykilforsenda fyrir öryggi íbúa, lífsgæði þeirra og áframhaldandi samfélagslega og efnahagslega þróun svæðisins.
Jafnframt dregur þessi staða skýrt fram nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist hratt við með auknum fjárfestingum í öðrum samgönguinnviðum, ekki síst á landi, til að tryggja stöðugleika og framtíð vaxtar og viðgangs á Vestfjörðum.
Innviðafélag Vestfjarða hvetur stjórnvöld eindregið til að grípa þegar til að hefja staðarvalskönnun um nýjan flugvöll á Ísafirði og tryggja reglulegar flugsamgöngur sem og öflugar samgöngur á landi og styðja þannig við áframhaldandi efnahagsævintýri á Vestfjörðum.“