fbpx
Fimmtudagur 06.mars 2025
Fréttir

Bandarískur brotamaður fróaði sér á almannafæri í Kópavogi

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 6. mars 2025 14:30

Mynd/Kópavogsbær

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir blygðunarsemisbrot í Kópavogi en maðurinn fróaði sér í bíl sem lagt var fyrir framan heimili konu í Kópavogi. Konan varð vitni að athæfi mannsins. Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi flutt til Íslands eftir að hafa afplánað tæplega 10 ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum.

Konan kærði athæfi mannsins í september 2023 en hún sagði þá að hann hefði tvisvar sinnum áður lagt bifreið sinni fyrir framan heimili hennar. Lýsti hún aðstæðum þannig að mögulegt væri fyrir fólk á bílum að leggja þeim það nálægt að auðvelt væri að sjá inn á heimili hennar. Sagði konan að í annað skiptið hefði maðurinn starað inn um glugga á heimili hennar. Í þriðja skiptið hafi hún verið ein heima en þegar hún hafi séð athæfi mannsins hafi hún tekið það upp á myndband og sent eiginmanni sínum.

Lýsti hún manninum fyrir lögreglu, gaf upp skráningarnúmer bifreiðarinnar sem hann ók og afhenti lögreglunni myndbandið. Sagði konan að henni hefði verið verulega brugðið þar sem atvikið hefði átt sér stað um það leyti dags sem að börn í hverfinu héldu til skóla.

Þegar maðurinn var yfirheyrður af lögreglu sagðist hann eiga konu og tvö börn sem einnig byggju hér á landi en dveldu tímabundið í Flórída í Bandaríkjunum. Hann væri atvinnulaus en væri í atvinnuleit. Viðurkenndi hann að eiga umræddan bíl en neitaði alfarið að hafa stundað sjálfsfróun í honum á almannafæri.

Fangelsi í Flórída

Tjáði maðurinn lögreglu að hann hefði setið í fangelsi í Flórída í 10 ár en haldið til Íslands eftir að hann var látinn laus. Fjölskylda eiginkonunnar væri ósátt við það og hefði borið út sögur um hann.

Þegar manninum var sýnt myndbandið sagðist hann búa í Kópavogi með konu en þau væru að skilja. Hann viðurkenndi að hafa fróað sér í bílnum en hafi ekki ætlað sér að einhver gæti séð hann.

Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa fróað sér í bílnum þar sem hann deildi herbergi með öðrum og því væri ekkert næði þar til slíkra athafna. Hann neitaði því að hafa stöðvað bílinn áður í umræddri götu eins og konan sem sá til hans hélt fram. Sagðist maðurinn skammast sín og að enginn hafi átt að verða var við athæfi hans. Sagðist hann fyrir dómi hafa síðar frétt af því að myndbandið væri í almennri dreifingu og hann hafi í kjölfarið ákveðið að halda af landi brott.

Fyrir dómi sagði konan að bíllinn hefði verið um fjóra metra frá heimili hennar. Sagði hún að myndbandið hefði ekki verið sent neinum öðrum en lögreglunni. Í dómnum segir að konan hafi sagt fyrir dómi að mágkona hennar hafi flett upp bílnúmerinu og séð að bíllinn hafi verið skráður á manninn. Sagðist konan hafa leitað að nafni mannsins á internetinu og séð þá að hann ætti sér sögu um kynferðisofbeldi gegn 13 ára stúlku.

DV framkvæmdi sams konar leit að nafni mannsins á netinu og gefur sú leit til kynna að umræddur fangelsisdómur í Flórída hafi einmitt verið fyrir kynferðisofbeldi gegn 13 ára stúlku.

Konan sagði fyrir dómi að henni hafi verið verulega brugðið vegna athæfis mannsins og hann hefði sært blygðunarsemi sína en börn hennar hafi verið nýfarin í skólann.

Misvísandi

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að framburður mannsins hafi verið reikull og misvísandi, til að mynda um hvar hann hafi búið og hverjar heimilisaðstæður hans hafi verið. Framburður konunnar og eiginmanns hennar hafi hins vegar verið stöðugur. Myndbandið og viðurkenning mannsins á að hann hafi sannarlega stundað sjálfsfróun í bílnum renni frekari stoðum undir framburð þeirra. Dómurinn fellst ekki á þau rök mannsins að hann hafi talið sig vera í einrúmi enda sé af gögnum málsins og framburði vitna ljóst að hann hafi tekið á sig krók til að leggja bíl sínum fyrir framan heimili konunnar. Sömuleiðis gefi trúverðugur framburður konunnar og manns hennar til kynna að maðurinn hafi áður lagt bílnum fyrir framan húsið. Þar að auki séu opin svæði í nágrenninu.

Maðurinn var því sakfelldur.

Það var metið honum til refsiauka að hann hafði áður greitt sekt með tveimur lögreglustjórasáttum vegna aksturs undir áhrifum áfengis og án gildra ökuréttinda.

Hæfilegt þótti miðað við sakarefnið, dómvenju og ákvæði hegningarlaga að dæma manninn í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann þarf að auki að greiða konunni 350.000 krónur í miskabætur auk vaxta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Alisson verðlaunaður
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Landhelgisgæslan fylgist með skuggaflota Rússa  

Landhelgisgæslan fylgist með skuggaflota Rússa  
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Lögregla handtók átta ungmenni í gærkvöldi

Lögregla handtók átta ungmenni í gærkvöldi
Fréttir
Í gær

Trump segir að Bandaríkin muni eignast Grænland á „einn eða annan hátt“

Trump segir að Bandaríkin muni eignast Grænland á „einn eða annan hátt“
Fréttir
Í gær

Rússar þurfa að berjast í 83 ár til viðbótar til að ná allri Úkraínu

Rússar þurfa að berjast í 83 ár til viðbótar til að ná allri Úkraínu