fbpx
Fimmtudagur 06.mars 2025
Fréttir

Æfing slökkviliðsins átti eftir að draga dilk á eftir sér

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 6. mars 2025 11:10

Slökkviliðsbíll. Mynd: DV. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru konu vegna synjunar Mosfellsbæjar á beiðni hennar um leyfi til að byggja frístundahús á lóð hennar. Í úrskurðinum kemur fram að málið megi rekja allt aftur til ársins 1993 þegar þáverandi eigandi lóðarinnar veitti slökkviliðinu leyfi til að nota hús sem stóð á lóðinni til æfinga en í því fólst að kveikt var í húsinu og virðast brunarústirnar enn standa á lóðinni.

Lóðin er hluti af Mosfellsbæ en konan sótti árið 2023 um að aðalskipulagi yrði breytt til að hún gæti fengið byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni ásamt því að hún óskaði eftir breytingu á skráðri landnotkun umrædd svæðis, þar sem lóðin er, úr óbyggðu svæði og hverfisverndarsvæði í frístundabyggð.

Skipulagsnefnd bæjarins hafnaði umsókn konunnar í nóvember síðastliðnum og kærði hún þá synjun til úrskurðarnefndarinnar.

Í kæru konunnar kom fram að á lóðinni hafi staðið hús lögbýlisins Óss. Með samþykki þáverandi eigenda hafi það verið brennt á æfingu slökkviliðsins árið 1993. Þáverandi eigendur hafi fengið ábendingu frá Mosfellsbæ í bréfi í október 1993 að vegna brunans yrði að sækja um leyfi byggingarnefndar fyrir endurbyggingu hússins. Í nokkur skipti hafi verið sótt um slíkt leyfi en vegna skilgreiningar á landinu sem óbyggt svæði í aðalskipulagi hafi það ekki fengist.

Bjartsýni varð að engu

Konan sagðist hafa rætt hugsanlegar breytingar á aðalskipulagi við fulltrúa Mosfellsbæjar á fundi í ágúst 2023 og verið bjartsýn um að fallist yrði á breytta landnotkun. Í trausti þess hafi hún keypt lóðina í september 2023 og óskað eftir breytingu á aðalskipulagi í því skyni að fá byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni en þeirri ósk hafi verið hafnað.

Vildi konan meina að með þessari synjun skipulagsnefndar bæjarins væri brotið á rétti hennar því bréfið frá því í október 1993 væri enn í gildi og eigendum landsins hafi aldrei verið gert ljóst að breyta ætti skilgreiningu landsins úr landbúnaðarlandi í óbyggt svæði. Á korti frá 1992 sjáist að lóðin sé innan svæðis sem merkt sé sem frístundabyggð og aðalskipulag hafi ekki breyst nema fyrir þá lóð og aðra lóð úr landi Óss. Lóðin standi í frístundabyggð þar sem séu tugir sumarhúsa og byggingarleyfi hafi verið veitt vegna 15-25 frístundahúsa á nokkrum stöðum í nágrenninu á síðustu þrem árum. Nýtt hús hafi risið nálægt lóðinni árið 2022 og ný hús séu í smíðum á fleiri stöðum. Óskiljanlegt væri að leyfa ekki byggingu á sumarhúsi á landi mitt í frístundabyggð og brjóti það gróflega gegn jafnræðisreglu og reglu um meðalhóf.

Skipt upp

Í andsvörum Mosfellsbæjar kom fram að lögbýlinu Óss hafi verið skipt upp. Íbúðarhúsið hafi ekki verið innan lóðarinnar og því sé enginn lögbýlisréttur til staðar. Umrætt bréf frá 1993 hafi ekki falið í sér rétt til að endurbyggja húsið sem var brennt. Vísaði bærinn til ákvæða laga um mannvirki sem kveði á um að skilyrði fyrir byggingarleyfi sé að mannvirki samræmist skipulagsáætlunum. Þar sem hið umrædda svæði væri skipulagt sem óbyggt svæði hafi bænum verið óheimilt að veita konunni byggingarleyfið.

Minnti bærinn einnig á að beiðni konunnar um að breyta svæðinu, sem lóðin er á, í frístundabyggð hafi verið hafnað þar sem ákveðið hafi verið að skipuleggja ekki ný frístundasvæði innan sveitarfélagsins. Það sama hafi verið gert þegar fyrri eigandi óskaði eftir sömu breytingu 2006. Vildi bærinn meina að konan hafi ekki með nokkrum hætti mátt hafa raunhæfar væntingar til þess að þessar umbeðnu breytingar yrðu samþykktar.

Formið

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að bréfið frá 1993 sem vitnað sé til kveði á um að sækja verði um leyfi til að endurbyggja húsið í kjölfar brunaæfingarinnar. Fallist sé á þau sjónarmið bæjarins að í bréfinu hafi ekki falist nein heimild til mannvirkjagerðar. Erindi konunnar hafi heldur ekki snúist um að fá leyfi til að endurbyggja hið ónýta hús.

Segir nefndin að af erindi konunnar yrði ekki ráðið að það hafi falið í sér umsókn um byggingarleyfi, heldur hafi falist í því umsókn um breytingu á aðalskipulagi með það í huga að fá byggingarleyfi að slíkum breytingum loknum. Í málinu liggi þannig hvorki fyrir formleg umsókn um byggingarleyfi né ákvörðun byggingarfulltrúa um höfnun á slíkri umsókn.

Segir nefndin að breytingar á aðalskipulagi skuli samkvæmt lögum vera staðfestar af Skipulagsstofnun og ráðherra. Ákvarðanir sem það eigi við um sé samkvæmt lögum ekki hægt að bera undir úrskurðarnefndina.

Á þessum grundvelli var kæru konunnar vísað frá.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Örvænting hjá ungmennum og foreldrum þeirra vegna lokunar hjá Janusi endurhæfingu – „Þetta er hræðilega sorglegt“

Örvænting hjá ungmennum og foreldrum þeirra vegna lokunar hjá Janusi endurhæfingu – „Þetta er hræðilega sorglegt“
Fréttir
Í gær

„Þetta var sko alls ekki það sem ég sá fyrir mér en hann er enn þá þessi jarðtenging og við erum ógeðslega góð saman“

„Þetta var sko alls ekki það sem ég sá fyrir mér en hann er enn þá þessi jarðtenging og við erum ógeðslega góð saman“