Í vikunni var greint frá skiptalokum í tveimur einkahlutafélögum í veitingageiranum á Akureyri og að ekkert hefði fengist upp í ríflega 120 milljóna króna kröfur í þrotabúin. Um var að ræða félögin Norðursteik ehf. og Kósku ehf. sem voru á bak við rekstur útibúa keðjannna Hamborgarafabrikkunnar, Lemon og Blackbox. Vísir greindi fyrst frá gjaldþroti félaganna.
Bæði félögin voru í eigu veitingamannanna og hjónanna Jóhanns Stefánssonar og Katrínar Óskar Ómarsdóttur sem hafa verið umsvifamikil norðan heiða en segja má að skilji eftir sig sviðna jörð rekstrarlega.
Áðurnefnd gjaldþrot eru nefnilega ekki þau einu sem tengjast hjónunum.
Haustið 2022 keyptu þau rekstur Salatsjoppunar ehf. sem rak samnefndan veitingastað við Tryggvabraut á Akureyri ásamt Erlingi Erni Óðinssyni í gegnum einkahlutfélögin S14 ehf. (sem er í eigu hjónanna) og Cue ehf. (sem er í eigu Erlings Arnar). Nafni staðarins var breytt í Kvikkí en tæpu ári síðar, þann 14. júní 2023, var rekstrarfélagið Salatsjoppan ehf. úrskurðað gjaldþrota eða sama dag og Kóska ehf. og Norðursteik ehf.
Skiptum í félaginu var lokið þann 19. febrúar síðastliðinn og fékkst ekkert upp í lýstar kröfur sem námu tæplega 30 milljónum króna.
Rekstur Kvikkí hélt hins vegar áfram á nýrri kennitölu, Akfest ehf., en sú gleði var skammvin. Það félag var úrskurðað gjaldþrota þann 7. maí 2024 og var skiptum lokið 14. ágúst sama ár. Aftur fundust engar eignir í búinu en lýstar kröfur námu rétt tæplega 47 milljónum króna.
Þá var reksturinn færður yfir á enn eina kennitöluna, Litla Mathöllin ehf. sem er félag sem stofnað var í janúar 2024. Kvikkí er enn í fullum rekstri í dag og á umræddri kennitölu.
Stríð stéttarfélagsins Eflingar við Samtök fyrirtækja í veitingarekstri (SVEIT) vegna samninga þess við stéttarfélagið Virðingu hefur varla farið fram hjá nokkrum manni. Forsvarsmenn Eflingar, með formanninn Sólveigu Önnu Jónsdóttur fremsta í flokki, hafa farið mikinn gegn síðastnefnda félaginu sem þau fullyrða að sé gervistéttarfélag sem brjóti gegn ákvæðum íslenskra laga um lágmarksréttindi fólks á vinnumarkaði.
Jóhann Stefánsson er einn af stofnendum Virðingar, samkvæmt gögnum frá stofnfundi félagsins í september 2024, og situr í stjórn þess sem einn meðstjórnenda.