Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins rétt í þessu. Sigur hennar var mjög naumur en hún hlaut 931 atkvæði á móti 912 atkvæðum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Guðrún er fyrsta konan til að gegna embætti formanns flokksins í 95 ára sögu hans.
„Takk fyrir að sýna það að Sjálfstæðisflokkurinn er lang lang öflugasta fjöldahreyfing landsins. Saman ætlum við að gera hann sterkari og samheldnari en nokkru sinni fyrr,“ sagði Guðrún í sigurræðu sinni eftir að úrslitin höfðu verið kynnt. „Þetta er sigur okkar sem trúum á frelsið, framtakið og sjálfstæðið,“ sagði hún ennfremur.