Samkvæmt tilkynningu frá Landsbankanum fór uppgjör og afhending vegna kaupa Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka fram í dag og hafi Landsbankinn tekið við rekstri félagsins. TM verður eftirleiðis rekið sem dótturfélag Landsbankans.
Eftirfarandi er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningunni:
„TM er öflugt tryggingafélag með frábæru starfsfólki sem býr yfir mikilli þekkingu á tryggingamarkaði. Við hlökkum til að vinna með starfsfólki TM að því að þróa spennandi nýjungar. Saman búa Landsbankinn og TM yfir öflugu þjónustu- og söluneti, hvort sem er í gegnum reynslumikið starfsfólk, stafrænar lausnir eða í útibúum um allt land. Við sjáum fyrir okkur gott aðgengi viðskiptavina að vörum og þjónustu beggja félaga sem skapar bankanum og TM mörg tækifæri til sóknar. Við teljum auk þess að kaup bankans á TM muni hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans, fjölga tekjustoðum og auka ávinning eigenda bankans til framtíðar. Landsbankinn og TM verða betri saman!“
Birkir Jóhannsson, forstjóri TM, segir eftirfarandi:
„Við hjá TM erum virkilega spennt að ganga til liðs við Landsbankann. Viðskiptavinir Landsbankans hafa um árabil verið meðal ánægðustu viðskiptavina á íslenskum bankamarkaði og TM hefur á undanförnum misserum stigið afgerandi skref í átt að sama marki á tryggingamarkaði. Ég er sannfærður um að þegar við snúum bökum saman munu TM og Landsbankinn veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi alhliða fjármálaþjónustu, hjálpa þeim að vaxa og dafna og grípa þá þegar áföll verða.“
Samkvæmt tilkynningunni var umsamið kaupverð samkvæmt kaupsamningi 28,6 milljarðar krónur og miðist það við efnahagsreikning TM í upphafi árs 2024. Líkt og fram hafi komið hafi verið samið um að endanlegt kaupverð yrði aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá 1. janúar 2024 til afhendingardags. Hækkun á efnislegu eigin fé TM á tímabilinu 1. janúar 2024 til 31. desember 2024 nemi um 3,7 milljörðum króna (hagnaður tímabilsins, leiðrétt fyrir breytingum á óefnislegum eignum) og sé heildarkaupverð með kaupverðsaðlögun til 31. desember 2024 því um 32,3 milljarðar króna. Samkvæmt því sé margfeldi kaupverðs af efnislegu eigin fé TM 1,80.
Að lokum segir í tilkynningunni að lokauppgjör vegna kaupverðsaðlögunar muni fara fram þegar endurskoðað uppgjör TM miðað við afhendingardag liggi fyrir og muni koma til hækkunar eða lækkunar á kaupverðinu.