Stefán Bogi Sveinsson, fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í Múlaþingi, segir bæjarstjórn Kópavogs brjóta lög með skipun nýrrar „framkvæmdastjórnar.“ Jafn framt segir hann þetta vera grófa móðgun við kjörna sveitarstjórnarfulltrúa.
Tilkynnt var á miðvikudag að ráðist yrði í breytingar á stjórnkerfi og skipuriti Kópavogsbæjar. Þremur var sagt upp í tengslum við breytingarnar en auglýst verður eftir þremur nýjum skrifstofustjórum.
Stjórnsýslusvið og fjármálasvið eru lögð niður og þeirra í stað stofnaðar fjórar skrifstofur um verkefni sviðanna.
„Framkvæmdastjórn sveitarfélagsins verður í kjölfar breytinganna auk bæjarstjóra skipuð bæjarritara, mannauðsstjóra, þjónustustjóra, áhættu- og fjárstýringarstjóra, umbóta og þróunarstjóra, sviðsstjóra velferðarsviðs, sviðsstjóra menntasviðs og sviðsstjóra umhverfissviðs,“ segir í tilkynningu bæjarins og taka breytingarnar gildi núna um mánaðamótin.
„Hvað í ósköpunum var ég að lesa?!“ spyr Stefán Bogi, sem var lengi í sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs og Múlaþings fyrir hönd Framsóknarflokksins og gegndi meðal annars embætti forseta sveitarstjórnar, í færslu á samfélagsmiðlum. „Þetta lýsir svo barnalegu skilningsleysi á því hvernig lýðræðislegt stjórnkerfi á að virka að það nær ekki nokkurri átt. En bæjarstjóri Kópavogs kemur úr „atvinnulífinu“ og virðist halda að sveitarfélög sé hægt að reka eins og fyrirtæki.“
Hafa ber í huga að Stefán er í raun einnig að skjóta á flokkssystkini sín, en Framsóknarmenn standa að meirihluta í Kópavogi ásamt Sjálfstæðismönnum.
Bendir Stefán Bogi á að um stjórn sveitarfélaga gildi sérstök lög. Þar komi fram að stjórn sveitarfélaga sé lýðræðislega kjörin og beri heitið sveitarstjórn, hreppsstjórn, bæjarstjórn eða borgarstjórn í tilfelli Reykjavíkur. Skýr ákvæði séu um framkvæmdastjóra sveitarfélaga, sem mega bera titilinn sveitarstjóri, bæjarstjóri eða borgarstjóri. Sem og um byggðarráð, bæjarráð eða borgarráð.
Í lögunum segir: „Byggðarráð fer ásamt framkvæmdastjóra með framkvæmdastjórn og fjármálastjórn sveitarfélagsins að því leyti sem þessi mál eru ekki öðrum falin.“
„Það að kalla þessa hirð embættismanna í Kópavogi, eins ágætt og það fólk annars er, „framkvæmdastjórn“ sveitarfélagsins er að mínu mati í engu samræmi við sveitarstjórnarlög og jafnframt gróf móðgun við kjörna sveitarstjórnarfulltrúa sem lögum samkvæmt skulu fara með stjórn sveitarfélagsins,“ segir Stefán Bogi að lokum.