Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi leyfi sem byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar veitti íbúa í Laugardal til ýmissa framkvæmda á lóð sinni. Var nágranni eigandans afar ósáttur við framkvæmdirnar og sagði þær meðal annars hafa valdið því að vatn læki niður á hans lóð. Hafa nágrannarnir deilt í töluverðan tíma og hafa mál þeirra áður komið til kasta nefndarinnar.
Hinn ósátti nágranni kærði leyfi fyrir byggingu pergólu og uppsetningu á heitum potti á verönd nágrannans. Kærði hann einnig að leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu steypts stoðveggs á lóðamörkum lóðar nágrannans og lóðar sem er fyrir aftan hús þeirra beggja.
Fyrir þá lesendur sem mögulega vita ekki hvað pergóla þá er það mannvirki sem er reist úr staurum og láréttum sperrum en þak er síðan sett ofan á.
Nefndin hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að stoðveggurinn væri byggingarleyfisskyldur.
Sótt var um leyfi fyrir veggnum, sem þá var þegar tilbúinn, og pergólunni og heita pottinum í september og leyfi til framkvæmdanna veitt í nóvember.
Hinn ósátti nágranni sagði í sinni kæru að framkvæmdirnar hefðu ekki verið grenndarkynntar af borginni fyrir honum. Ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir lóð nágranna hans og við slíkar aðstæður eigi samkvæmt lögum að fara fram grenndarkynning sé sótt um byggingarleyfi.
Reykjavíkurborg vildi meina að leyfilegt væri að falla frá grenndarkynningu ef sýnt væri fram á að framkvæmd varðaði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og viðkomandi sveitarfélags. Steypti stoðveggurinn væri 4,5 metra frá lóðamörkum kærandans en liggi að óbyggðri lóð sem sé í eigu borgarinnar. Stoðveggurinn sé þegar fullgerður, ekki hafi verið sýnt fram á að hagsmunir kærandans hafi skerst að nokkru leyti vegna framkvæmdanna.
Vildi borgin meina að kærandanum hefði verið haldið vel upplýstum um málið allt frá árinu 2023 og fengið sín tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri. Kærandinn hafi haldið því fram að vegna veggsins rynni meira vatn niður á lóð hans en áður. Um það atriði hafi verið sérstaklega fjallað í skýrslu vegna húsaskoðunar í nóvember 2024 og í skýrslunni komi fram að engar vísbendingar séu um slíkt og hafi kærandinn heldur ekki lagt fram gögn sem styðji þessa fullyrðingu.
Nágranninn sem stóð í framkvæmdunum tók undir þessi rök borgarinnar. Vísaði hann til þess að framkvæmdunum svipaði til annarra minniháttar framkvæmda á lóðum í hverfinu. Á fjölda lóða mætti finna skjólveggi, palla og heita potta. Hinn ósátti nágranni hans hafi komið öllum athugasemdum sínum á framfæri áður en framkvæmdaleyfið var veitt og því sé hægt að líta svo á að ákvæðum laga um grenndarkynningu hafi verið fullnægt gagnvart honum.
Kærandinn gerði í vibótarathugasemdum margvíslegar athugasemdir við vinnubrögð byggingarfulltrúa í málinu sem hann sagði hafa einkennst af mjög seinlegum viðbrögðum. Sagði hann nágranna sinn hafa komið röngum upplýsingum á framfæri í málinu. Sagði hann það rangt hjá honum að veggurinn væri aðeins 90 sentímetrar á hæð og væri við auðu lóðina, bak við hús þeirra beggja. Hafi nágranninn sem reisti vegginn mokað jarðvegi af hans lóð til að fela raunverulega hæð veggsins sem væri um 220-250 sentímetrar og allur reistur inni á auðu lóðinni, sem borgin ætti, en ekki við hana. Kærandinn sagði að veggurinn væri því nær hans lóð en 4,5 metra.
Sagði kærandinn það koma skýrt fram í fyrri úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna málsins að hann ætti sannarlega lögvarðra hagsmuna að gæta. Stóð hann einnig fastur á því að meira vatn rynni niður á hans lóð, sem stæði mun lægra í landinu, vegna veggsins og sagði einnig að mælingar hafi sýnt fram á að veggurinn sé allur inni á auðu lóðinni en ekki á lóð nágrannans en byggingarleyfisumsókn hans eigi aðeins við um þá lóð. Vatn læki niður í kjallara hans húss og þar að auki væri útsýni hans verulega skert vegna veggsins. Enn fremur hafi hann lagt fram ljósmyndir af lekanum og því sé rangt að hann hafi ekki lagt fram nein gögn til að sýna fram á leka vegna veggsins.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að kærandinn hafi sýnt fram á að framkvæmdirnar varði hans hagsmuni og því hafi Reykjavíkurborg borið að grenndarkynna framkvæmdina. Því sé ekki annað hægt en að fella ákvörðun um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjarins, pergólunnar og heita pottsins úr gildi.
Eins og áður segir hefur veggurinn þegar verið reistur og yrði því væntanlega næsta skref í málinu að grenndarkynna framkvæmdirnar. Hvort athugasemdir sem kærandinn mun væntanlega koma aftur á framfæri munu hafa einhver áhrif á framkvæmdirnar á eftir að koma í ljós.