Kristján Berg Ásgeirsson, fiskikóngurinn, segist hafa mikinn áhuga á stjórnmálum og hafa hugsað að bjóða sig fram, hann viti bara ekki hvar hann eigi að byrja.
Í viðtali við Eggert Skúlason í Dagmálum segist hann sjá sig fyrir sér í Sjálfstæðisflokknum, hann sé þó ekki að fara að mæta á landsfund um helgina, en segir stjórnmál mikið rædd á sínu heimili.
„Ég bíð bara eftir símtali.“
Félagarnir ræða hver verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins, en tvær konur eru nú í framboði. Í framhaldi spyr Eggert hvernig Kristjáni lítist á að mæðraveldið hafi tekið við, þar sem konur skipa nú flest valdamestu embætti þjóðarinnar.
„Íslendingar eru alltaf svo ýktir í öllu. Mér finnst við vera komin með of mikið af konum, það er bara mín skoðun. Það þarf að blanda þessu, ég til dæmis í mínu fyrirtæki er með helming konur og helming karlar, það er bara frábær blanda. En að það séu komnar konur í öll embætti og alla stjórnsýslu, það finnst mér ekki gott.“
Eggert bendir á að áður hafi karlar skipað öll embætti og hvort þurfi ekki aðeins að slá ofan í botn áður en blöndunin á sér stað.
„Af hverju látum við ekki bara Noreg stjórna þessu hérna, við erum að gera allt eins og Noregur og norðurlöndin, bara copy paste þýða þetta yfir á íslensku, þurfum ekkert þessa stjórnsýslu hérna, við erum hvort eð er alltaf að gera eins og Noregur og norðurlöndin, látum þau bara stjórna þessu.“