Samninganefnd Eflingarfélaga hjá hjúkrunarheimilum hefur tilkynnt Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) um uppsögn kjarasamnings. Í fréttatilkynningu frá Eflingu kemur fram að uppsögnin sé gerð með vísun í forsenduákvæði í kjarasamningi Eflingar og SFV.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar ásamt samninganefnd Eflingarfélaga tilkynnti fulltrúum SFV þetta í dag á fundi í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Samningi er sagt upp frá og með 1. maí næstkomandi, en viðræður um endurnýjun geta hafist án tafar.
Umrætt forsenduákvæði gerði ráð fyrir því að fram kæmi tímasett áætlun um hvernig ná skuli gildandi viðmiðum um lágmarksmönnum á hjúkrunarheimilum. Starfshópi skipuðum af heilbrigðisráðherra sem í sátu fulltrúar Eflingar, SFV, Sjúkratrygginga Íslands, Heilbrigðisráðuneytisins og fleiri tókst ekki vinna slíka tímasetta áætlun heldur skilaði aðeins af sér minnisblaði þann 18. febrúar síðastliðinn.
Úrbætur í mönnun voru meginkrafa Eflingar í viðræðum við hjúkrunarheimilin fremur en launakröfur, og vék félagið ekki frá þeirri launastefnu sem mörkuð var í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði í apríl 2024. Það markaði tímamót að takast skyldi að fjalla beint um mönnun, með umræddu forsenduákvæði, í kjarasamningunum sem undirritaðir voru við SFV þann 2. október 2024. Ljóst er hins vegar að forsenduákvæðið hefur ekki verið uppfyllt.
Þetta merkir að í maí næstkomandi verða 2.300 Eflingarfélagar, mestmegnis konur í sögulega vanmetnum kvennastörfum, með lausa kjarasamninga.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar lýsir vonbrigðum með stöðu mála. „Mér og samninganefndinni þykir leitt að þessi staða sé komin upp. Við bundum miklar vonir við að hægt yrði að bæta úr þeirri grafalvarlegu stöðu sem ríkir á hjúkrunarheimilunum vegna undirmönnunar. Stöðu sem gerir að verkum að Eflingarfélagar axla gríðarmikla ábyrgð og ganga í reynd í störf sem faglærðir starfsmenn ættu að vinna. Hér er við stör fjölmennur hópur af algjörlega ómissandi starfsfólki. Nú hefjum við kjaraviðræður að nýju og ekki eftir neinu að bíða.“