fbpx
Fimmtudagur 27.febrúar 2025
Fréttir

Breytingar boðaðar á fæðingarorlofskerfinu í kjölfar dómsmáls

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 27. febrúar 2025 16:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur lagt fram í Samráðsgátt drög að frumvarpi til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Snúast þessar breytingar einkum um að auka orlofsrétt nýbakaðara foreldra sem starfa á vinnumarkaði hérlendis en hafa í aðdraganda fæðingar einkum haft tekjur í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Ljóst er að dómsmál sem fór alla leið fyrir Hæstarétt á töluverðan þátt í tilkomu þessa frumvarps.

Í samantekt á efni frumvarpsins segir að það sé lagt fram til að bregðast við athugasemdum ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, frá 2004 um innleiðingu evrópskrar reglugerðar um samræmingu almannatryggingakerfa.

Í samantektinni segir að við lögin verði bætt við nýrri málgrein þar sem kveðið sé á um þau nýmæli að þegar foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði skemur en fjóra mánuði á viðmiðunartímabili tekna en hafi starfað að hluta eða að öllu leyti í öðru aðildarríki að samningnum um EES, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, á fyrrnefndu viðmiðunartímabili, skuli miða útreikning á meðaltali heildarlauna við þá almanaksmánuði sem foreldrið hefur starfað á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Með öðrum orðum þá á það að skapa rétt til vissra tekna í fæðingarorlofi hér á landi að hafa haft tekjur, á vissu tímabili, í einhverju ríkja EES, sé viðkomandi snúinn til starfa á íslenskum vinnumarkaði.

Dómsmálið

Fyrir um ári úrskurðaði Hæstiréttur íslenska ríkinu í vil í máli sem kona nokkur höfðaði. Krafðist konan þess að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála, um að greiðslur fæðingarorlofssjóðs til hennar yrðu ekki hækkaðar til samræmis við tekjur sem hún hafði haft í Danmörku, yrði felldur úr gildi.

Taldi konan að úrskurðurinn bryti í bága við EES-samninginn. Hún hafði verið búsett og starfandi í Danmörku á tólf mánaða viðmiðunartímabili sem lauk sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns hennar. Þar sem hún hafði ekki haft neinar tekjur hér á landi á tímabilinu fékk hún aðeins lágmarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði.

Fyrir héraðsdómi hafði verið aflað ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum en niðurstaða þess var að samkvæmt EES-samingnum ætti að reikna viðmiðunartekjur launþega út frá tekjum í einu aðildarríki þegar sótt væri um bætur almannatrygginga í öðru ríki samningsins.

Í greinargerð með frumvarpsdrögunum er minnst á þetta dómsmál og að í kjölfar þess að ráðgefandi álitisins hafi verið aflað hafi athugasemdir ESA, um að þetta hefði ekki verið innleitt á Íslandi, verið ítrekaðar. Hæstiréttur hafi sýknað ríkið á þeim grundvelli að heimild hefði ekki verið í lögum til að miða greiðslur í fæðingarorlofi við tekjur í öðru EES-ríki. Rétturinn hafi þó tekið sérstaklega fram í sínum dómi að umræddar breytingar á fæðingarorlofskerfinu hafi ekki verið innleiddar til samræmis við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum.

Framtíðin

Í greinargerðinni segir að helsta ástæðan að baki frumvarpinu sé athugasemdir ESA en ljóst er þó að dómsmálið hefur eitthvað haft um tilkomu þess að segja.

Samkvæmt greinargerðinni er talið að frumvarpið muni hafa áhrif á fámennan hóp foreldra en gögn Vinnumálastofnunar bendi til að það hefði mögulega haft áhrif á greiðslur til 33 foreldra sé litið til fæðingarársins 2021.

Talið er að áhrifin á fjárhag ríkissjóðs verði því óveruleg en að 2 milljónir króna muni kosta að aðlaga tölvukerfi Vinnumálastofnunar að þessum breytingum.

Verði frumvarpið innleitt í lögin taka breytingarnar gildi 1. júlí og munu eiga við foreldra sem eiga rétt til greiðslna samkvæmt lögunum.

Segir í greinargerðinni að þannig sé gert ráð fyrir að breytingarnar eigi við um alla foreldra sem eigi ónýttan rétt innan fæðingarorlofskerfisins 1. júlí 2025 óháð því hvenær börn fæðist, séu ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks vill ekki CODA Terminal á Vellina – „Orðið „óvissa“ kemur fyrir 47 sinnum í skýrslunni“

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks vill ekki CODA Terminal á Vellina – „Orðið „óvissa“ kemur fyrir 47 sinnum í skýrslunni“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Fiskikóngurinn hefur ekkert að fela -„Það skíta allir upp á bak, bara spurning hvernig þú skeinir þér, ég er mjög vel skeindur“

Fiskikóngurinn hefur ekkert að fela -„Það skíta allir upp á bak, bara spurning hvernig þú skeinir þér, ég er mjög vel skeindur“
Fréttir
Í gær

Diljá Mist Einarsdóttir býður sig fram í varaformann Sjálfstæðisflokksins

Diljá Mist Einarsdóttir býður sig fram í varaformann Sjálfstæðisflokksins
Fréttir
Í gær

Hefur áhyggjur af launahækkunum kennara

Hefur áhyggjur af launahækkunum kennara