Kristín Marís Thoroddsen, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í meirihluta Hafnarfjarðarbæjar, er á móti CODA Terminal verkefninu sem Carbfix vill reisa sunnan við Vallahverfið. Bendir hún á að orðið „óvissa“ komi 47 sinnum fyrir í umhverfismati.
Bæjarstjórn skrifaði undir viljayfirlýsingu við Carbfix og Rio Tinto um CODA Terminal verkefnið árið 2022. En eftir mikinn þrýsting frá íbúum hefur bæjarstjórn Hafnarfjarðar síðan lofað íbúakosningu um málið, verði það samþykkt af bæjarstjórn. En þar sem meirihlutinn hefur aðeins 6 fulltrúa af 11 er ljóst að hann þarf nú aðkomu minnihlutans til þess að koma málinu í gegn.
Í aðsendri grein á Vísi bendir Kristín á að nýlega hafi Skipulagsstofnun skilað af sér umhverfismati sem Hafnfirðingar hafi lengi beðið eftir.
„Frá upphafi hafa efasemdir ríkt um verkefnið. Upphaflegar áætlanir hafa tekið breytingum, sem hefur grafið undan trúverðugleika þess. Íbúar hafa verið uggandi og neitað að trúa því að af þessu gæti orðið. Umhverfismatsskýrslan hefur ekki dregið úr þeirri óvissu, heldur vakið enn fleiri spurningar. Orðið „óvissa“ kemur fyrir 47 sinnum í skýrslunni, sem undirstrikar hversu margt er óljóst varðandi framkvæmdina,“ segir Kristín.
Vegna þessarar óvissu og skorts á lykilupplýsingum um ýmsa þætti segir Kristín að ljóst sé að hér sé um tilraunaverkefni að ræða. Tilraunaverkefni sem ekki eigi heima í næsta nágrenni við íbúabyggð. Nefnir hún að upphaflega hafi málið verið gæluverkefni Orkuveitu Reykjavíkur.
Óvissan sem nefnd er í umhverfismatinu snýr meðal annars að umhverfisáhrifum, langtímaáhrifum á grunnvatn og jarðlög, öryggi við niðurdælingu koltvísýrings or reksturs mannvirkja.
„Þótt framkvæmdaaðilar lofi vöktun, meðal annars með jarðskjálftamælingum og neyðaráætlunum, er lítið fjallað um áhrif á íbúa og samfélagið í heild. Enn er óljóst hvernig eftirliti verður háttað og hvernig brugðist verður við óvæntum frávikum, frávikum sem gætu haft óafturkræfar afleiðingar,“ segir Kristín.
Þetta þýði að Hafnfirðingar séu skildir eftir í óvissu á eigin kostnað en Carbfix fái að njóta vafans. Vísindamenn fullyrði að verkefnið muni líklega ganga vel en í ljósi viðskiptamódelsins sé óvíst hversu langlíft þetta verði. Það gæti orðið úrelt vegna nýrra tæknilausna sem geri mengandi fyrirtækjum kleift að farga koltvísýringi á eigin vegum.
Að lokum víkur Kristín að íbúakosningunni. Segist hún óska engri byggð slíks klofnings meðal íbúa. Ef til kosninga kæmi gæti eitt hverfi verið skilið eitt eftir með mengun frá Evrópu.
„Ég efast ekki um að tæknin sem Carbfix þróar gæti virkað, en ég tel að þessi tilraun eigi ekki heima í grennd við íbúabyggð. Það er ekki aðeins spurning um óvissu og náttúruvernd, heldur einnig um siðferðileg álitamál og skýra andstöðu íbúa. Svara þarf siðferðislegum spurningum eins og hvort geyma megi co2 sem ekki hefur orðið til á staðnum og kölluð er mengun af sumum, undir lóðum annarra, íbúa eða fyrirtækja,“ segir hún. „Mín afstaða er skýr, ég þarf ekki fleiri skýrslur, Hafnarfjörður er einfaldlega ekki til sölu fyrir verkefni sem þetta. Ég vona því innilega að okkur beri gæfa til að kveðja þessa hugmynd sem fyrst, þakka Orkuveitu Reykjavíkur fyrir sýndan áhuga og vona að orka þeirra fari í að skoða aðrar staðsetningar.“