Trump hefur sjálfur hótað því að Bandaríkjamenn muni taka yfir og eignast Gasaströndina og breyta henni í ferðamannaparadís.
Myndbandið sem um ræðir er augljóslega búið til af gervigreindarforriti og í byrjun þess má sjá mikla eyðileggingu á svæðinu sem er vísun í linnulitlar árásir Ísraelshers á svæðinu. „2025, hvað svo?“ stendur í texta á myndbandinu og í kjölfarið sést einhvers konar framtíðarsýn fyrir svæðið.
Þar má meðal annars sjá ógnarstóra gullstyttu af Trump, skeggjaðar dansmeyjar, glæsilegar byggingar og brosandi fólk í sól og blíðu. Þá sést unglegur Elon Musk í einu skotinu á ströndinni þar sem hann gæðir sér á gómsætu brauði.
Trump birti myndbandið á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, og í frétt Guardian kemur fram að forsetinn hafi fengið yfir sig töluverða gagnrýni síðustu klukkustundirnar.
„Ég gæti í raun ekki verið meiri stuðningsmaður Trumps en þetta myndband gengur of langt. Mjög ósmekklegt,“ segir til dæmis einn. „Ég hata þetta. Ég elska forsetann okkar en þetta er skelfilegt,“ segir annar.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan. Í frétt Guardian er þess getið að myndbandið hafi áður birst á samfélagsmiðlum sem eru ótengdir Hvíta húsinu. Trump hafi birt myndbandið en ekki skrifað neinn texta við það.