Niðurskurðardeild Elon Musk (DOGE) hefur eytt fimm stærstu „sparnaðaraðgerðunum“ sem kynntar voru með pompi og prakt í síðustu viku. Engu að síður þykist deildin hafa sparað 65 milljarða dollara, þó að það sé ekki tilgreint hvernig.
Dagblaðið New York Times greinir frá þessu.
Í síðustu viku birti DOGE lista yfir opinbera samninga sem ætti að rifta og aðgerðir til sparnaðar. Átti þetta að spara bandaríska ríkinu formúgu og var mikið gert úr þessu.
Nú hefur DOGE hins vegar strokað út fimm stærstu „sparnaðarverkefnin“ eftir að New York Times og fleiri fjölmiðlar bentu á villur í útreikningunum.
DOGE heldur því fram að stofnunin hafi sparað bandarískum skattborgurum 65 milljarða dollara, eða 9 þúsund milljarða íslenskra króna. Þessi tala var nýlega hækkuð þó að sparnaðarverkefnin fimm hafi horfið af síðunni. Engar skýringar hafa verið gefnar á þessum útreikningum.
„Kvittananaveggurinn“ svokallaði á síðu DOGE er eini staðurinn þar sem tilkynningar um störf stofnunarinnar koma fram. Fimmta verkefnið var strokað þaðan út á þriðjudag. Villurnar sem hafa fundist á þessum kvittanavegg eru slíkar að miklar efasemdir hafa vaknað um heilindi og störf DOGE, sem þegar hefur ráðist í fjöldauppsagnir og niðurskurð víðs vegar í kerfinu.
8 milljarða dollara samningur í innflytjenda og tollamálum. Samningurinn reyndist aðeins vera 8 milljóna dollarar. Heildarútgjöld innflytjenda og tollamálastofnunarinnar (ICE) eru 8 milljarðar þannig að þessi útreikningur er illskiljanlegur.
Þrír 655 milljón dollara samningar í þróunaraðstoð Bandaríkjanna. Þetta reyndist vera aðeins einn samningur en ekki þrír. Þá reyndist sparnaðurinn ekki vera nema 18 milljónir dollara.
232 milljón dollara niðurskurður í almannatryggingakerfinu. DOGE taldi að samningurinn lyti að kynhlutlausri skráningu í tryggingakerfinu. Í raun var það aðeins lítill hluti af samningnum sem sneri að því. Sparnaðurinn reyndist því aðeins vera rúmlega 0,5 milljón dollara.
Elon Musk og DOGE eru alls ekki hætt að reyna að finna leiðir til að spara í kerfinu og samninga til að rifta. Hefur nokkrum samningum verið bætt við í þessari viku.
Enn virðast hins vegar útreikningarnir vera byggðir á sandi og bandarískir fjölmiðlar eru sífellt að finna villur.
Meðal annars í stórri „sparnaðaraðgerð“ upp á 1,9 milljarða dollara í fjármálaráðuneytinu. New York Times hefur þegar greint frá því að þeim samningi hafi þegar verið sagt upp, í haust þegar Joe Biden var forseti.