Grindvíkingurinn Björn Birgisson, sem gjarnan skrifar um þjóðfélagsmál á Facebook-síðu sinni segist hafa verið sentimetrum frá því að lenda í stórslysi á Sandgerðisvegi í gær.
Ökumaður sem keyrði á eftir honum hafi keyrt fram úr honum og smeygt sér fram fyrir bíl Björns þegar annar bíll kom á móti.
„Ók á tæplega 90 kílómetra hraða og sá framundan tvo bíla nálgast á leið frá Sandgerði, væntanlega á svipuðum hraða og ég var á. Sá bílljós í baksýnisspeglinum og sýndist þau nálgast mjög hratt, en skyggni var ekki sérlega gott. Hægði ósjálfrátt á rafmagnsdósinni,“
segir Björn sem var að keyra Sandgerðisveg á heimleið eftir vel heppnaða ferð til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
„Ökuníðingurinn á eftir mér þeyttist fram úr, mín ágiskun er að hann hafi ekið á um 150 kílómetra hraða í slabbinu á veginum og hársbreidd munaði að hann lenti framan á fyrri bílnum sem kom úr gagnstæðri átt. Ef ég hefði ekki hægt á Kíunni hefði þarna orðið stórslys.
Plássið sem ökuníðingurinn hafði til að smeygja sínum bíl fram fyrir okkar bíl mælist frekar í sentimetrum en metrum.
Þetta var rosalegt og því miður náði ég ekki númeri hvíta fólksbílsins til að geta haft upp á nafni ökuníðingsins sem var í þessum dráps leiðangri.“