Íris Þórsdóttir tannlæknir segir óráðlegt að nota svokölluð „whitening“ tannkrem sem seld eru í verslunum. Það sé einnig stórskaðlegt að nota matarsóda til þess að hvítta tennurnar.
Íris ræddi um hvíttunaraðferðir og fleira í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun. En þær hafa verið mikið í umræðunni á samfélagsmiðlum.
„Maður hefur séð ýmislegt. Fólk er að nudda jarðarberjum á tennurnar til þess að gera þær hvítari, nota matarsóda og alls konar. Þetta er í rauninni mjög skaðlegt. Ekki gera þetta,“ sagði íris í viðtalinu.
Vissulega væri fólk að reyna að fá hvítari tennur og mælti hún þá með því að fara til tannlæknis og fara í hvíttunarmeðferð þar. Það er að fá sérstaka góma og hvítta tennurnar undir handleiðslu.
„Matarsódinn er í rauninni eins og sandpappír. Þá tökum við ysta lagið af og þá fer vissulega liturinn með en við erum bara að veikja tennurnar,“ sagði Íris.
Þáttarstjórnendur spurðu írisi þá um ýmis efni sem seld eru í matvöruverslunum hér á landi. Efni til að bera á tennurnar og jafn vel sofa með til að hvítta.
„Það eru til tannkrem sem stendur á „whitening“. Það eru oftast slípikorn í þeim sem þýðir að það sama á við og um matarsódann. Við mælum ekki með því,“ sagði Íris. „Það eru til einhver svona „strips“ og eitthvað svoleiðis. Ef að fólk að veit að það er allt í lagi með tennurnar er allt í lagi að nota það en flest af þessum efnum í búðunum eru frekar gagnslaus eða gagnslítil.“
Mesta hættan við að fara í tannhvíttunarferli án handleiðslu tannlæknis er að viðkomandi sé með skemmd í tönnunum.
„Ef þú ert með djúpa skemmd og ferð að nota sterk hvíttunarefni þá getur það verið of mikið fyrir taugina í þeirri tönn og það gæti endað með rótarfyllingu,“ sagði Íris. „Ég væri svoldið hikandi við það.“
Tilefnið af viðtalinu var Tannverndardagurinn, sem er 20. mars næstkomandi, sem verður reyndar Tannverndarvika að þessu sinni.
„Ég vil alltaf teygja þetta út í heilt ár því að við eigum alltaf að vera að hugsa um tennurnar okkar. Þetta er bara jákvætt og gaman. Það er alltaf gaman að koma til tannlæknis,“ sagði hún.