Hin pólska Julia Wandelt, sem sagst hefur vera hin horfna breska Madeleine McCann, hefur verið handtekin. Hún verður ákærð fyrir umsáturseinelti gagnvart foreldrum Madeleine.
Breska blaðið The Guardian greinir frá þessu.
Eins og var sagt frá í DV í vikunni hefur pólsk kona að nafni Julia Wandelt sagst vera Madeleine McCann sem hvarf í Portúgal árið 2007. Hefur hún birt DNA próf sem hún segir styðja málstað sinn og hefur hún kallað Gerry og Kate McCann, foreldra Madeleine, foreldra sína.
Þetta er reyndar þriðji snúningurinn hjá Juliu. En hún hélt því fyrst fram að hún væri Madeleine í þætti Dr. Phil árið 2023. Ári seinna dró hún það til baka og baðst afsökunar en nú hefur henni snúist hugur á ný.
Julia var handtekin í borginni Leicester í Bretlandi og er grunuð um umsáturseinelti gagnvart Gerry og Kate sem og fleiri fjölskyldumeðlimum McCann fjölskyldunnar, frá 3. janúar árið 2024 til 15. febrúar árið 2025. Meðal annars hafi hún farið að heimili Gerry og Kate í tvígang, 2. maí og 7. desember á síðasta ári.
Julia er einnig sökuð um að hringja í sífellu í McCann fjölskylduna, senda þeim bréf, hljóðupptökur og skilaboð á samfélagsmiðlunum WhatsApp og Instagram.
Eins og segir í ákæruskjalinu hefur hegðun Juliu haft umtalsverð áhrif á fjölskylduna og truflað daglegt líf. Hafi Julia mátt vita að hún væri að valda þeim skaða með framferði sínu.
Verði Julia Wandelt fundin sek gæti hún átt yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsisvist sem og háa sekt. Á hún að mæta fyrir dómara 7. apríl næstkomandi til að svara ákæruefninu.
Surjit Singh Clair, talsmaður Juliu, sagðist hneykslaður á að hú hefði verið fangelsuð, sem og allir stuðningsmenn hennar.