Íslenska liðið varð sem kunnugt er Evrópumeistari í hópfimleikum í október síðastliðnum og var það í fjórða skiptið sem titillinn vinnst. Áður hafði liðið unnið 2010, 2012 og 2021.
Í tilnefningunni á vef Evrópska fimleikasambandsins segir meðal annars að íslenska liðið hafi sýnt hvernig á að vinna saman sem lið. Liðið hafi heillað dómara og áhorfendur upp úr skónum með listfengi sínu á gólfinu.
„Ferðalag þeirra að Evrópumeistaratitlinum einkenndist af óteljandi klukkutímum af æfingum, mikilli skuldbindingu og sameiginlegri ástríðu fyrir íþróttinni […] Með því að vinna Evrópumeistaramótið komu þær ekki aðeins heim með titil heldur veittu ótal íþróttamönnum og áhangendum um allt Ísland innblástur.“
Fjögur önnur lið eru tilnefnd í sama flokki en hægt er að kjósa hér.