Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef Veðurstofunnar, en þar kemur fram að miðað við fyrri atburði á Sundhnúksgígaröðinni megi ætla að vaxandi líkur séu á að næsti atburður hefjist innan nokkurra daga eða vikna.
Ef til eldgoss kemur verður það áttunda eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni frá því í desember 2023. Vegna þessara endurteknu atburða þar sem kvikugangar og gossprungur hafa myndast hefur spenna í jarðskorpunni minnkað með hverjum atburði. Það þýðir að sífellt færri og minni skjálftar mælast á svæðinu vikurnar og dagana fyrir gos en gerðu í aðdraganda fyrstu eldgosanna.
Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að reikna þurfi með mjög stuttum fyrirvara um eldgos, allt niður í 30 mínútur.
„Þau merki sem hafa sést þegar kvika leitar til yfirborðs eru áköf smáskjálftahrina á Sundhnúksgígaröðinni, þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku í Svartsengi, aflögun á ljósleiðara og aflögun á yfirborði sem sést á rauntíma GPS-mælingum.“
Eins og komið hefur fram urðu nokkrir skjálftar á fáum mínútum á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells rétt fyrir klukkan 20 í gærkvöldi. Talið var hugsanlegt að um væri að ræða merki um upphaf kvikuhlaups. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar sá engin önnur merki á mælikerfum um að kvikuhlaup væri hafið.
Sambærileg skjálftavirkni sást á þessum slóðum 4. nóvember í fyrra, en eldgos hófst 20. nóvember.
Við hverju má búast í næsta eldgosi?
Í tilkynningu Veðurstofunnar kemur fram að talið sé líklegast að kvikan komi fyrst upp á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Það hafi verið tilfellið í sex gosum af þeim sjö sem hafa orðið frá því að eldvirknin hófst í árslok 2023. Undantekningin sé eldgosið sem hófst í janúar 2024 þegar kvikan kom fyrst upp rétt suður af Hagafelli.
Þá kemur fram að áhrif frá eldgosi sem kemur á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells fari svo eftir því hvort gossprungan lengist í norður eða suður. Dæmi um áhrif ef til eldgoss kemur:
„Ekkert í gögnum Veðurstofunnar útilokar að eldgos komi upp sunnan við eða suður af Hagafelli. Í slíkum atburði gæti hraun náð að Nesvegi og Suðurstrandarvegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað öllum flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.“