Yfirgnæfandi meirihluti félagsfólks Félags leikskólakennara (FL), sem starfar annars vegar hjá Hafnarfjarðarkaupstað og hins vegar hjá Fjarðabyggð, hefur samþykkt boðun verkfalls í marsmánuði, hafi samingar ekki náðst. Upphafsdagur verkfalls í Hafnarfirði verður 17. mars og 24. mars í Fjarðabyggð. Verkföllin verða ótímabundin.
Í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands kemur fram að atkvæðagreiðsla í báðum sveitarfélögum hafi byrjað á mánudag, 17. febrúar, og lauk henni á hádegi í gær. Þátttaka var í báðum tilfellum góð, eða yfir 80 prósent. 100% sögðu já í öðru sveitarfélaginu og 98% í hinu.
Þá skellur ótímabundið verkfall á í leikskólum Kópavogsbæjar 3. mars næstkomandi, hafi samningar ekki náðst.
Þá er þess getið í tilkynningunni að félagsfólk FL, sem starfar í Leikskóla Snæfellsbæjar, hefur verið í verkfalli síðan 1. febrúar síðastliðinn.
Boðuð hafa verið verkföll í fimm framhaldsskólum; Borgarholtsskóla, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskóla Austurlands næsta föstudag, 21. febrúar, hafi samningar ekki náðst. Um ótímabundin verkföll er að ræða.
Félagsfólk í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, sem starfar í Tónlistarskóla Akureyrar, hefur jafnframt samþykkt boðun verkfalls frá og með næsta föstudegi, 21. febrúar. Verkfallið verður tímabundið og stendur til og með 4. apríl, hafi samningar ekki náðst.
Félagsfólk í Félagi grunnskólakennara (FG) og Skólastjórafélagi Íslands (SÍ), sem starfar hjá sveitarfélögunum Ölfusi, Hveragerðisbæ og Akraneskaupstað, hefur jafnframt samþykkt verkfallsboðun frá 3. mars næstkomandi. Verkfallsboðun nær einnig til félagsfólks sem starfar á skólaskrifstofum sveitarfélaganna. Verkföll grunnskólafélaganna verða tímabundin og standa til og með 21. mars 2025.