fbpx
Þriðjudagur 18.febrúar 2025
Fréttir

Sauð upp úr í umræðuþætti Samstöðvarinnar þegar talið barst að Breiðholtsskóla – „Má ekki ræða þessa hluti?“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 18. febrúar 2025 16:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það ætlaði allt um koll að keyra í þætti Björns Þorlákssonar á Samstöðinni í gær. Þar komu saman fjölmiðlamennirnir Ólafur Arnarson frá Eyjunni, María Lilja Þrastardóttir frá Samstöðinni og Valur Grettisson frá Heimildinni. Til umræðu kom frétt sem birtist í Morgunblaðinu um ógnarástand í Breiðholtsskóla þar sem nemendur veigra sér við að mæta í skólann út af hópi fimm drengja.

Umræðan, eða rifrildið, er áhugaverð fyrir þær sakir að þar var deilt um hvort það megi yfir höfuð ræða það hvort því geti fylgt vandamál að blanda saman ólíkum menningarheimum eða hvort slík umræða, eða tilraunir til að eiga slíka, séu alltaf fordómar. María Lilja hóf umræðuna og vísaði til fréttar sem birtist í Morgunblaðinu um helgina. Þar var sérstaklega tekið fram að af þessum fimm drengjum séu minnst tveir frá Mið-Austurlöndum og arabískumælandi. Tveir til viðbótar séu af erlendu bergi brotnir en einn sé svo íslenskur. Morgunblaðið sagðist hafa heimildir fyrir því að illa hafi gengið að fá foreldra drengjanna frá Mið-Austurlöndum til að eiga samskipti við skólann, meðal annars sökum þess að karlmennirnir beri enga virðingu fyrir konum, mæður drengjanna megi ekki koma fram fyrir hönd fjölskyldnanna við skólann og þetta viðhorf hafi svo smitast til drengjanna sem virði konur að engu.

Rasísk slagsíða Morgunblaðsins

María segir þetta furðulega framsetningu á frétt og dæmi um „rasíska slagsíðu“ sem hafi birst undanfarið í Morgunblaðinu „þar sem ákveðnir blaðamenn virðast draga taum múslimahaturs og fordóma í garð fólks frá Mið-Austurlöndum“. Hafi blaðamanni Morgunblaðsins með ótrúlegum hætti tekist að snúa þessu sorlega máli yfir á menningu tveggja drengja úr þessum fimm barna hóp. Þetta sé óeðlileg framsetning.

Valur Grettisson tók undir með Maríu og sagði framsetninguna sérstaka. „Þarna var einhvern veginn fullyrt að börnin væru einhvern veginn menguð af þessari menningu og viðhorfi til kvenna og þar af leiðandi væri þetta einhvers konar vandi. Ég hef aldrei lesið svona grein áður og fannst það mjög sérstakt.“

Ólafur Arnarsson var á öðru máli. Hann sagði mikla afneitun fólgna í því að horfast ekki í augu við það að því geti fylgt vandamál þegar ólíkir menningarheimar mætast. Þetta þekkist víða og þá sérstaklega þegar um er að ræða menningarheima landa þar sem staða kvenna er gjörólík stöðu íslenskra kvenna.

Við þetta fauk í Maríu sem greip ítrekað fram í fyrir Ólafi og krafði hann rökstuðnings. Hún spurði Ólaf ítrekað hvort hann þekki arabískar fjölskyldur á Íslandi og hvort hann viti nokkuð um hver staða kvenna sé hjá þeim. María spurði hvort það væri ekki rétt að takast á við vandamál ef og þá þegar þau koma upp frekar en að gefa sér að þegar um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum sé um að ræða að þá sé hægt að kenna menningu þeirra um allt.

Ólafur spurði þá á móti hvort mál Breiðholtsskóla væri ekki slíkur vandi. María tók fram að vandinn í Breiðholtsskóla sé að þar sé hópur drengja sem líður illa.

Ólafur spurði þá hvort það mætti ekki ræða þaða sem kemur fram í frétt Morgunblaðsins, að mæður drengjanna mega ekki ræða við skólayfirvöld og að drengirnir beri ekki virðingu fyrir þeim konum sem kenna þeim við skólann. María spurði þá Ólaf: „Samkvæmt hverjum?“ og Ólafur spurði á móti: „Má ekki ræða þessa hluti?“

Bæði María og Valur fóru þá að hlæja, sögðu að vissulega mætti ræða þessa hluti og spurðu hvort það væri raunverulegur vandi. Gætu feður drengjanna ekki talað við skólann? Ekkert hafi komið fram í frétt Morgunblaðsins um að það sé ekki hægt að ræða við karlmennina í fjölskyldunni.

Má ekki ræða þessi mál?

Ólafur tók þá fram að hann væri að byggja málflutning sinn á þessari frétt. María tók fram að hann væri greinilega að byggja á fordómum og spurði aftur hvers vegna skólinn gæti ekki bara rætt við feðurna.

Ólafur reyndi ítrekað að koma því að að það sé gefið til kynna í fréttinni umþrættu að menningarmunur sé vandamál í þessu tiltekna máli og hvort það megi ekki ræða það að vandi geti fylgt því þegar ólíkir menningarheimar mætast, svo sem út af stöðu kvenna. María tók fram að það væri náttúrulega heimilisofbeldi að meina konum að koma fram fyrir hönd fjölskyldunnar, það hefði ekkert með menningu að gera.

Ólafur sagði þá: „Hvers konar fáránleikaleikhús er þetta? Þetta er bara leikhús fáránleikans“. Hann tók fram að það væri ekki hægt að ræða þetta mál við Maríu ef hún ætlaði viljandi að misskilja hann, sérstaklega þar sem hún hóf þessa umræðu einmitt á grundvelli þess að frétt Morgunblaðsins væri fordómafull.

Valur tók þá fram að hann og María væru að vísa til þess að blaðamaður Morgunblaðsins væri að gefa sér hluti sem væru vafasamir, svo sem að það sé ákveðin inngilding í þessum börnum sem geri að verkum að þau hagi sér með tilteknum hætti. Sannleikurinn sé sá að það sé ekkert vitað til slíks. Vildi Valur heldur ræða málið út frá félagslegum aðstæðum barnanna sem kæmu líklega af brotnum heimilum. Rétt er að taka fram að í téðri frétt Morgunblaðsins segir að fyllyrt hafi verið við blaðið að drengirnir búi við illt atlæti heima við, séu læstir úti og ekki treyst fyrir lykli að heimilum sínum svo þeir valsi um göturnar í reiðileysi. Ekkert kemur annað fram um félagslegar aðstæður drengjanna utan þess að tveir drengjanna séu frá Mið-Austurlöndum sem hafi valdið vandræðum í samskiptum milli skólans og foreldra. Vísaði Morgunblaðið til heimilda sem miðillinn sagðist hafa fyrir einmitt þessu.

Við höfum séð það hérna síðustu 10 mínúturna

Í hvert sinn sem Ólafur reyndi að beina umræðunni aftur að því að það þyrfti að vera hægt að ræða menningarmun greip María fram í og spurði hann hvað hann hefði fyrir sér í slíkum fullyrðingum. Ólafur spurði þá hvort það væri í alvörunni bannað að ræða þessa hluti án þess að fá yfir sig ásakanir um rasisma.

Valur tók þá fram að vissulega þyrfti að ræða þessi mál og mögulega hafi því verið sleppt of lengi. Frjálslyndum hefnist nú fyrir slíkt með þeirri íhaldsbylgju sem er að eiga sér stað í heiminum.

Björn Þorláksson tók fram að það sé ástæða fyrir því að fólk veigri sér við að ræða þessa hluti. „Við höfum séð það hérna síðustu 10 mínúturnar.“

Mögulega ættu íslenskir fjölmiðlar einmitt að koma sér úr þögninni og fjalla betur um þessa hluti. María tók fram að það sé einmitt málið, það sé ekki hægt að fullyrða hitt og þetta um stórkostlegan menningarlegan vanda án þess að gera grein fyrir slíkum dæmum úr raunveruleikanum. Þess í stað sé fólk stöðugt að gefa sér að menningarmunur einn og sér sé vandamál.

Umræðan sem vitnað er til hér að ofan hefst þegar liðin er 1 klukkustund og 44 mínútur af þættinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir að Pútín gleðjist yfir taktík Trump

Segir að Pútín gleðjist yfir taktík Trump
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Þrátt fyrir mikið mannfall og refsiaðgerðir styðja Rússar enn stríðsreksturinn

Þrátt fyrir mikið mannfall og refsiaðgerðir styðja Rússar enn stríðsreksturinn
Fréttir
Í gær

Vilja fund með lögreglustjóra vegna fimm ára tafa á kæru ÁTVR – „Hvað í ósköpunum geti skýrt þessa ótrúlegu töf“

Vilja fund með lögreglustjóra vegna fimm ára tafa á kæru ÁTVR – „Hvað í ósköpunum geti skýrt þessa ótrúlegu töf“
Fréttir
Í gær

Fleiri fylgjandi vegtollum en á móti í fyrsta sinn – Framsóknarmenn hrifnastir

Fleiri fylgjandi vegtollum en á móti í fyrsta sinn – Framsóknarmenn hrifnastir