Sigrún segir þetta í samtali við Morgunblaðið í dag en tilefnið er fréttaflutningur blaðsins af stöðu mála í Breiðholtsskóla þar sem nokkrir nemendur á miðstigi eru sagðir halda skólanum í heljargreipum. Ræddi blaðið í vikunni við nokkra foreldra sem lýstu stöðunni og því úrræðaleysi sem ríkir í málefnum nemenda sem glíma við hegðunarvanda.
Sjá einnig: Segir fimm 12 ára drengi halda Breiðholtsskóla í heljargreipum
Á Bylgjunni í gær var einnig rætt við Hermann Austar, föður 12 ára stúlku í skólanum, sem lýsti því ofbeldi sem hún hefur orðið fyrir.
Sagði Hermann að menningarlegur vandi sé í spilinu og ekki hafi tekist að ná samvinnu við foreldra þeirra fimm 12 ára drengja sem viðhaldi ógnaröld í skólanum. Hann segir athafnaleysi skólans og skóla- og frístundasviðs í málinu vera glæpsamlegt. „Þetta er stofnun sem ekki er hægt að treysta,“ sagði Hermann.
Sjá einnig: Ógnarástand í Breiðholtsskóla:„Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis“
Sigrún segir að skólana skorti verulega úrræði þegar upp koma mál af þessu tagi. Þá nefnir hún að hlutverk kennara sé fyrst og fremst að mennta börnin en starf kennara hafi færst sífellt meira út fyrir þetta hlutverk. Segir hún við Morgunblaðið að mikill tími í starfi kennara fari í að leysa úr alls konar ágreiningsmálum.
„Þessi atvik eins og lýst er í Breiðholtsskóla – þetta er orðið algengara og það er orðið erfiðara að eiga við þetta,“ segir hún í viðtalinu.
Hún segir lykilatriði vera samstarf heimilis og skóla og þegar það er ekki til staðar sé mjög erfitt að vinna úr málunum. Hún nefnir einnig heilbrigðiskerfið, sérstaklega geðheilbrigðismál, og telur að ef þau yrðu sett í forgang myndi það skila sér inn í skólana.
„Það yrði greiðari aðgangur að úrræðum fyrir foreldra með börn í vanda og þau fengju loks viðeigandi aðstoð. Það myndi hjálpa fyrst og fremst barninu sjálfu, en um leið skólanum í heild,“ segir hún við Morgunblaðið þar sem nánar fjallað er um málið.